„Þriðjungur lítur á fjölmiðla sem óvin“

Donald Trump Bandaríkjaforseti lét fjölmiðla heyra það á fjöldafundi í …
Donald Trump Bandaríkjaforseti lét fjölmiðla heyra það á fjöldafundi í Flórída í gær og sagði meðal annars að þriðjungur bandarísku þjóðarinnar líti á fjölmiðla sem óvin fólksins. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti fullyrðir að hann hafi ávallt fordæmt hatursorðræðu og þröngsýni en fjölmiðlar hafi kosið að fjalla ekki um það.

Þetta kom fram í máli hans á fjöldafundi í Flórída í gær sem haldinn var í tengslum við þingkosningar sem fara fram í landinu í næstu viku. Trump hélt áfram að láta fjölmiðla heyra það og sagði meðal annars að þriðjungur bandarísku þjóðarinnar líti á fjölmiðla sem óvin fólksins. Í umfjöllun BBC er bent á að forsetinn vísaði hins vegar ekki í neina heimild fyrir þessum tölfræðiupplýsingum. 

Forsetinn hefur verið gagnrýndur fyrir að kynda undir beitingu ofbeldis með öfgafullri orðræðu gegn andstæðingum sínum, fjölmiðlum, innflytjendum og múslimum.

Fyrr í vikunni vottaði Trump aðstandendum fórnarlamba þeirra sem létust þegar árásarmaður skaut 11 manns til bana í bænahúsi gyðinga í Pittsburgh á laugardag. Hvíta húsið hefur neitað því alfarið að talsmáti og orðfæri forsetans eigi nokkurn þátt í skotárásinni og benti á að fram hefur komið að Robert Bowers, árásarmaðurinn, hafi ekki verið stuðningsmaður Trumps.

Á sama tíma hefur verið bent á að maður­inn sem var hand­tek­inn í síðustu viku, grunaður um að hafa sent bréf­sprengj­ur til fólks sem hef­ur gagn­rýnt Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seta, sé yfirlýstur stuðningsmaður forsetans. Maðurinn, Ces­ar Sayoc, er re­públi­kani og var bíll hans skreyttur myndum af Trump.

„Fjölmiðlarnir vilja ekki heyra ykkar frásagnir“

Á fjöldafundinum í Flórída sagði forsetinn við viðstadda að fjölmiðlar vilji ekki heyra frásagnir almennings. „Við höfum fordæmt hatursorðræðu, þröngsýni, kynþáttahatur og fordóma af öllu afli en fjölmiðlar hlusta ekki á okkur,“ sagði Trump. Sagði hann það vera ástæðu þess að um þriðjungur þjóðarinnar líti á fjölmiðla sem óvin. Hvaðan hann fær þessar tölur fylgdi hins vegar ekki sögunni.

Frá því Trump tók við embætti forseta hefur hann ítrekað sakað fjölmiðla um að mistúlka orð hans. Fjölmiðlar vestanhafs hafa lagt áherslu á mik­il­vægi frjálsr­ar fjöl­miðlun­ar, meðal annars með sam­stilltri her­ferð fjöl­miðla í ágúst vegna orðræðu Trumps um fjöl­miðla og falsfréttir á und­an­förn­um miss­er­um.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert