Sonur Begum látinn

Sonur Shamimu Begum lést úr lungnabólgu í flóttamannabúðunum.
Sonur Shamimu Begum lést úr lungnabólgu í flóttamannabúðunum. AFP

Sonur Shamimu Begum, breskrar konu sem flúði til Sýrlands er hún var 15 ára til að ganga til liðs við Ríki íslams, er látinn. Þetta staðfestir talsmaður sýr­lensku lýðræðisaflanna SDF, sem reka flóttamannabúðirnar sem Begum dvelur í, í samtali við BBC.

Tasni­me Ak­unj­ee, lög­fræðingur Begum fjöl­skyld­unn­ar, hafði áður sagt að margt benti til þess að drengurinn væri látinn, en að sér hef­ði ekki tek­ist að fá það end­an­lega staðfest­. SDF staðfestu lát drengsins hins vegar nú í kvöld

Drengurinn, sem fæddist í flóttamannabúðunum, var innan við þriggja vikna gamall er hann lést og er banamein hans á dánarvottorði sagt vera lungnabólga.

BBC hefur eftir sjúkraliða Rauða hálfmánans, sem starfar í flóttamannabúðunum, að drengurinn hafi átt við öndunarörðugleika að stríða. Farið var með hann til læknis í gærmorgun sem sendi hann á sjúkrahús, en hann lést síðar sama dag að sögn sjúkraliðans.

Drengurinn sem var nefndur Jarrah var þriðja barnið sem Begum eignaðist eftir að hún flúði til Sýr­lands, en hin tvö börn­in voru lát­in áður en hún kom flúði frá kalífadæmi Ríkis íslams.

Begum snéri aftur til búðanna síðar sama dag og var drengurinn grafinn þar í gær að því er BBC greinir frá.

Begum hef­ur biðlað til breskra stjórn­valda um að fá að snúa aft­ur heim, en þess í stað hef­ur rík­is­borg­ara­rétt­ur henn­ar verið aft­ur­kallaður.

Sajid Javid, innanríkisráðherra Bretlands, sem ógilti ríkisborgararétt Begum sagði áður en lát drengsins var staðfest að hann hefði „ekkert nema samúð með börnunum sem dregin væru inn í þetta“. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert