Björgunarflugi hætt tímabundið

Hætt hefur verið að ferja farþega af skipinu í land …
Hætt hefur verið að ferja farþega af skipinu í land með þyrlum í bili. AFP

Dregið hefur úr umfangi björgunaraðgerða vegna hættuástands sem skapaðist þegar farþegaskipið Viking Sky varð vélarvana við vesturströnd Noregs síðdegis í gær. Hefur skipstjórinn tekið ákvörðun um að ekki verði fleiri farþegar ferjaðir með þyrlum í land að minnsta kosti tímabundið, að því er fram kemur í umfjöllun NRK.

Er ákvörðun skipstjórans sögð stafa af því að skipið sé nú á leið í land.

Af þeim 1.373 sem voru í skipinu hefur 463 verið komið í land. Þá voru 17 farþegar sem slösuðust fluttir á sjúkrahús til aðhlynningar. Flest tilfelli voru minni háttar, en þrír hlutu alvarlega áverka. Þyrla frá danska hernum tók þátt í aðgerðum.

Þrátt fyrir erfiðar aðstæður tókst í morgun að byrja að draga Viking Sky að höfn Molde með aðstoð dráttarbáta. Siglir skipið þó aðeins á þremur hnútum.

Vegna aftakaveðurs í gær og í nótt reyndist erfitt að tryggja festingar svo hægt yrði að aðstoða skipið með að komast úr þeim aðstæðum sem það var í.

Sveitarstjóri á Fræna, Jan Arve Dyrnes, sagði á blaðamannafundi í morgun að vonað sé að skipið verði bráðum komið í rólegri sjó sem myndi einfalda allar aðgerðir til muna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert