Macron vildi Merkel sem forseta í ESB

Macron hefði viljað sjá Merkel hætta sem Þýskalandskanslari og taka …
Macron hefði viljað sjá Merkel hætta sem Þýskalandskanslari og taka við stöðu forseta framkvæmdastjórnar ESB. AFP

Emmanuel Macron Frakklandsforseti segir að hann hefði stutt Angelu Merkel í embætti forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins hefði hún gefið kost á sér. Þetta kemur fram í viðtali við Reuters-fréttaveituna.

„Að sjálfsögðu hefði ég gert það, því ég tel að við þurfum einhvern sterkan í embættið. Evrópa þarf nýtt og traust andlit, og persónur sem endurspegla það,“ sagði forsetinn en hann er meðal þeirra sem þrýsta á um að kona muni taka við embættinu nú þegar Jean-Claude Juncker lætur af störfum í lok október. Engin kona hefur gegnt embættinu.

Skipan nýs forseta framkvæmdastjórnarinnar er í höndum leiðtográðs Evrópusambandsins, sem í sitja ýmist forsetar eða forsætisráðherrar aðildarríkja. Leiðtogafundur þeirra stendur nú yfir í Brussel og hefur skipan nýs forseta verið til umræðu.

Engin samstaða um oddvitana á þingi

Macron sagði í samtali við fjölmiðla í dag ljóst að engin samstaða væri um að að gera oddvita (spitzenkandidat) neinnar af þeim þremur fylkingum, sem mest fylgi fengu í Evrópuþingkosningunum í maí, að forseta, þrátt fyrir að í Lissabon-sáttmálanum sé kveðið á um að leiðtogaráðið skuli hafa niðurstöður þingkosninganna til hliðsjónar við útnefninguna. Evrópuþingið þarf enda að staðfesta útnefninguna.

Þar greinir Macron og Merkel raunar á, því Merkel hefur stutt, í það minnsta að nafninu til, Manfred Weber, oddvita hægribandalagsins EPP og flokksbróður sinn úr Kristilega demókrataflokknum í Þýskalandi, í embættið.

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, kveður senn.
Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, kveður senn. AFP

Danir til metorða?

Talið er mögulegt að Macron vilji sjá hina dönsku Margrethe Vestager, samkeppnisstjóra ESB, gegna embættinu. Hún tilheyrir frjálslynda bandalagi Macron (Renew Europe, áður ALDE) sem hlaut góða kosningu en flokkar sem tilheyra bandalaginu svo sem Venstre, flokkur Lars Løkke forsætisráðherra Danmerkur, hlutu 106 þingsæti af 751 og bættu við sig flestum sætum allra fylkinga á þinginu.

Þá hefur nafn Michel Barnier, aðalsamningamanns Evrópusambandsins í viðræðunum um útgöngu Breta úr sambandinu, einnig verið nefnt í því skyni en Barnier þykir hafa staðið sig feikivel í því starfi. Barnier, sem er Frakki, er meðlimur í hægribandalagi Merkel, EPP og á því sitthvað sameiginlegt með þeim báðum, Macron og Merkel.

Margrethe Vestager á kosningavöku Radikale Venstre, miðjuflokksins danska, í síðasta …
Margrethe Vestager á kosningavöku Radikale Venstre, miðjuflokksins danska, í síðasta mánuði. Hún sat áður á danska þinginu fyrir flokkinn og gegndi embætti viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Helle Thorning-Schmidt. AFP

Eins þykir Helle Thorning-Schmidt, fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur og núverandi framkvæmdastjóri Barnaheilla, Save the Children, vera mögulegur kandídat, annaðhvort sem forseti framkvæmdastjórnarinnar eða leiðtogaráðsins, en Donald Tusk hinn pólski lætur af embæti 1. desember.

Ólíklegt þykir að útnefning forseta framkvæmdastjórnarinnar verði leidd til lykta í dag, en einnig þarf að útnefna forseta Evrópuþingsins og forseta leiðtogaráðsins og munu leiðtogarnir að öllum líkindum vilja gæta jafnræðis milli kynja, álfuhluta og stjórnmálaskoðana hinna útvöldu. Aukafundur leiðtogaráðsins fer fram 30. júní þar sem telja má víst að málið verði afgreitt áður en nýtt Evrópuþing kemur saman til fyrsta fundar 2. júlí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert