Vildi meiri tollahækkun

Talskona Hvíta hússins segir Donald Trump hafa viljað hækka tolla …
Talskona Hvíta hússins segir Donald Trump hafa viljað hækka tolla á kínverskar vörur meira en gert var. AFP

Það vakti athygli á fundi leiðtoga G7-ríkjanna í Frakklandi í dag að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hafi svarað játandi er hann var spurður hvort hann hefði einhverjar efasemdir um síðustu tollahækkun á kínverskar vörur, að því er fram kemur í umfjöllun Reuters.

„Trump forseti svaraði játandi vegna þess að hann sér eftir því að hafa ekki hækkað tollana meira,“ sagði Stephanie Grisham, talskona Hvíta hússins, þegar blaðamenn báðu um skýringar vegna ummæla Trumps í dag.

Bandaríkin og Kína hafa skipst á tollahækkunum að undanförnu, en miklar viðskiptadeilur eru milli ríkjanna.

Trump hefur ekki haldið sér frá Twitter þrátt fyrir fundahöld leiðtoganna og tísti hann meðal annars í dag að það sem leiðtogar annarra ríka spyrja hann mest um vera: „Herra forseti, af hverju hatar bandarískir fjölmiðlar landið þitt svona mikið? Af hverju eru þeir að vonast til þess að landinu gangi illa?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert