Sakar eiginmanninn um hefndarklám og hættir á þingi

Katie Hill, þingkona demókrata, sakar eiginmann sinn, sem hún stendur …
Katie Hill, þingkona demókrata, sakar eiginmann sinn, sem hún stendur í skilnaði við, um að hafa dreift nektarmyndum af henni og konu sem starfaði fyrir framboð hennar á síðasta ári. AFP

Katie Hill, þingkona fulltrúardeildar Bandaríkjaþings fyrir Kaliforníu, hyggst hætta á þingi í lok vikunnar eftir að nektarmyndir voru birtar af henni án hennar samþykkis.

Afsögnina má rekja til ýmissa þátta. Hill hefur viðurkennt að hafa átt í sambandi við konu sem starfaði fyrir framboð hennar og sakar hún eiginmann sinn um að hafa dreift nektarmyndum af henni og konunni. Hill og eiginmaðurinn standa í skilnaði. 

Katherine Lauren Hill, sem var kjörin á þing fyrir ári og hefur verið lýst sem vonarstjörnu Demókrataflokksins, tilkynnti um afsögn sína á sunnudagskvöld. Í afsagnarbréfinu heitir hún því að berjast gegn hefndarklámi eftir að hún lætur af þingsetu. 

„Þau ykkar sem þekkja mig vita að ég er baráttukona,“ segir meðal annars í bréfinu. „Nú mun barátta mín snúast um að sigrast á hefndarklámi sem svo margar konur hafa orðið fyrir og aftrar þeim að bjóða sig fram til þings eða koma fram á opinberum vettvangi,“ segir jafnframt í uppsagnarbréfinu. 

Lögregla rannsakar dreifingu myndanna

Siðferðisnefnd þingsins hóf rannsókn á ásökunum gegn Hill um óviðeigandi samband hennar við samstarfsmenn hennar, samkvæmt Politico, en Hill hefur einnig verið sökuð um að eiga í sambandi við Graham Kelly, starfsmann á þinginu. Rannsókninni verður hætt þegar Hill lætur af þingstörfum en dreifing nektarmyndanna verður ekki tekin til baka, svo mikið er víst. 

Myndirnar voru upprunalega birtar á hægrisinnuðu bloggsíðunni RedState en Daily Mail hefur sömuleiðis birt myndirnar. Hún hefur óskað eftir því að lögreglan rannsaki birtingu nektarmyndanna. 

Hill hefur viðurkennt að hafa átt í sambandi við konuna sem starfaði fyrir framboð hennar en segir ekkert til í ásökununum um samband hennar við Kelly. Hill segir síðustu ár í hjónabandinu hafa verið stormasöm og viðurkenndi hún að það hafi meðal annars orsakað það að hún leyfði sé að eiga í sambandi við undirmann sinn.

„Ég veit að þó svo að sambandið hafi verið með samþykki beggja aðila er það óviðeigandi, en ég leyfði því samt sem áður að gerast þó svo að ég vissi betur. Fyrir það biðst ég afsökunar,“ skrifar Hill. 

Hill segir það hafa verið erfiða ákvörðun að segja af sér embætti en að hún telji ákvörðunina rétta fyrir íbúa kjördæmisins, samfélagsins og landsins alls. Nú hyggst hún nýta krafta sína til að berjast gegn hefndarklámi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert