„Hættuleg árás á rétt bandarísku þjóðarinnar“

Í málsvörn Donalds Trump Bandaríkjaforseta er farið fram á að …
Í málsvörn Donalds Trump Bandaríkjaforseta er farið fram á að báðum kæruliðum verði hafnað af þinginu, ekki síst til að koma í veg fyrir að ákæru til embættismissis verði beitt sem pólitísku vopni í bandarískum stjórnmálum og verði að venju. AFP

Ákæran á hendur Donald Trump Bandaríkjaforseta til embættismissis „er hættuleg árás á rétt bandarísku þjóðarinnar til að velja sér forseta og móðgun við stjórnarskrána“. Þetta er meðal þess sem fram kemur í málsvörn Trump sem birt hefur verið á vef Hvíta hússins. 

Þetta er í fyrsta skipti sem lögfræðiteymi forsetans opinberar málsvörnina. Pat Cipollone, lög­fræðileg­ur ráðgjafi Hvíta húss­ins, fer fyr­ir lög­fræðingat­eym­inu sem er einnig skipað Jay Seku­low, einkalögmanni Trump, Alan Ders­howitz, sem þekkt­ast­ur er fyr­ir að verja ýmsa fræga ein­stak­linga í gegn­um tíðina, og Kenn­eth Starr, en hann er þekkt­ast­ur fyr­ir að hafa verið sak­sókn­ari í ákæru Banda­ríkjaþings á hend­ur Bill Cl­int­on Banda­ríkja­for­seta árið 1998.

Kenn­eth Starr er í lögfræðiteymi Trump, en hann er þekkt­ast­ur …
Kenn­eth Starr er í lögfræðiteymi Trump, en hann er þekkt­ast­ur fyr­ir að hafa verið sak­sókn­ari í ákæru Banda­ríkjaþings á hend­ur Bill Cl­int­on Banda­ríkja­for­seta árið 1998. AFP

Trump er sakaður um að hafa látið frysta neyðaraðstoð til Úkraínu til að reyna að þrýsta á stjórn­völd þar í landi til að rann­saka demó­krat­ann Joe Biden og son hans. Joe Biden býður sig fram sem for­seta­efni Demó­krata­flokks­ins og verður mögu­lega and­stæðing­ur Trump í kom­andi for­seta­kosn­ing­um. 

„Þetta er ósvífin og ólögmæt tilraun til að snúa við niðurstöðu forsetakosninganna 2016 og til að hafa áhrif á kosningarnar í ár,“ segir einnig í málsvörn forsetans. 

Trump er sömuleiðis ákærður fyrir að hindra framgang rannsóknar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, sem ákærði forsetann. Í málsvörninni segir að ákæran sé ekkert nema pólitískt útspil demókrata í fulltrúadeildinni sem hafi hunsað öll fordæmi um meðferð kærumála í þinginu. Trump neitar því að hafa gerst sekur um glæpi eða lögbrot og segir þingið hafa ákveðið að kæra hann eftir ólöglega rannsókn. 

Í málsvörninni er farið fram á að báðum kæruliðum verði hafnað af þinginu, ekki síst til að koma í veg fyrir að ákæru til embættismissis verði beitt sem pólitísku vopni í bandarískum stjórnmálum og verði að venju. 

Ákæran var send til öldungadeildar þingsins á miðvikudag sem tekur hana fyrir á þriðjudag. Repúblikanar eru með meirihluta í efri deild þingsins og ef þeir eru hliðhollir forsetanum gæti Trump verið sýknaður innan tveggja vikna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert