Segir Joe Biden gjörspilltan

Tony Bobulinski.
Tony Bobulinski. AFP

Öldungadeild bandaríska þingsins hefur greint frá því að ekkert bendi til annars en að gögn Tonys Bobulinskis, fyrrverandi viðskiptafélaga sonar forsetaframbjóðandans Joes Bidens, séu áreiðanleg. Sonur Bidens, Hunter Biden, er talinn hafa tekið við milljónum dala frá erlendum ríkjum, þar á meðal Kína og Rússlandi. New York Post greindi fyrst frá. 

Benda gögn Bobulinski jafnframt til þess að Joe Biden hafi sömuleiðis tekið við peningum frá sömu ríkjum í gegnum son sinn. Þannig er forsetaframbjóðandinn sakaður um að hafa nýtt sér embætti varaforseta til að hagnast í gegnum greiðslur frá erlendum ríkjum. 

Biden heldur sig heima

Öldungadeildin er nú með málið til umfjöllunar, en umræddur Bobulinski verður að öllum líkindum yfirheyrður af FBI á næstunni. Enn er verið að skoða gögn Bobulinskis, en þau spanna þrjú ár og innihalda um 900 skjöl, þar á meðal tölvupósta sem sýna fram á þátt Joes Bidens. 

Joe Biden hefur fram til þessa neitað ásökununum, en eftir því sem fleiri skjöl hafa litið dagsins ljós hefur frambjóðandinn kosið að tjá sig ekki. Lítið hefur sést til Bidens undanfarna daga en hann heldur sig að mestu heima fyrir í Delaware-ríki.

Til vinstri má sjá son Joe Bidens, Hunter Biden.
Til vinstri má sjá son Joe Bidens, Hunter Biden. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert