Þúsundir létust í Bandaríkjunum

Nefnd sérfræðinga hjá bandaríska lyfjaeftirlitinu (FDA) mun hittast á fundi í dag til að fara yfir umsókn Pfizer og BioNTech um bráðaleyfi fyrir bóluefni þeirra við kórónuveirunni. Alls létust yfir þrjú þúsund úr Covid-19 í Bandaríkjunum á þriðjudag. 

Kanadíska lyfjaeftirlitið gaf út bráðaleyfi fyrir bóluefninu í gær og hefjast bólusetningar þar væntanlega á næstu dögum.

Um 70 milljónir jarðarbúa hafa smitast af Covid-19 og yfir 1,5 milljónir þeirra hafa látist. Víða er mikill vöxtur í nýjum smitum á sama tíma og veður fer kólnandi á norðurhluta jarðarinnar. Í Bandaríkjunum hafa 15 milljónir smitast og yfir 290 þúsund látist. Hvergi í heiminum eru smitin jafn mörg sem og andlát. 

Fjórðungur ætlar alls ekki að láta bólusetja sig

Aðeins helmingur Bandaríkjamanna ætlar að láta bólusetja sig samkvæmt skoðanakönnun  Associated Press-NORC Center. Fjórðungur aðspurðra er ekki viss hvort hann ætlar að láta bólusetja sig og sami fjöldi ætlar alls ekki að láta bólusetja sig.

Ekki liggur fyrir hvort FDA muni veita bráðaleyfi fyrir bóluefni Pfizer-BioNTechen. Heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna, Alex Azar, segir að það verði væntanlega gert í byrjun næstu viku. 

Bandarískir vísindamenn hafa tekið undir með breskum læknum um að fólk sem er með alvarleg ofnæmisviðbrögð eigi að sleppa því að láta bólusetja sig með bóluefninu frá Pfizer. 

Herforinginn Gus Perna hefur yfirumsjón með flutningum innan alríkisins og gaf í gær út skipun um að hefja dreifingu á sprautum og nálum, sótthreinsiklútum og öðrum búnaði sem þarf til að bólusetja. Fastlega er gert ráð fyrir að dreifingu ljúki á morgun, föstudag. Næstu bóluefni sem væntanlega verða samþykkt í Bandaríkjunum eru í þessari röð: Moderna, Johnson & Johnson og AstraZeneca.

Vonast er til þess að hægt verði að bólusetja 20 milljónir Bandaríkjamanna fyrir árslok. Í fyrstu verða íbúar hjúkrunar- og dvalarheimila bólusettir sem og heilbrigðisstarfsmenn í framlínu. Áætlað er að búið verði að bólusetja 100 milljónir fyrir lok júní.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert