Fjöldi Evrópuríkja lokar á Bretland

Bæði Holland og Belgía hafa þegar aflýst öllum flugferðum til …
Bæði Holland og Belgía hafa þegar aflýst öllum flugferðum til og frá Bretlandi. AFP

Nokkur fjöldi Evrópulanda hefur eða íhugar nú að loka á ferðalög frá Bretlandi í kjölfar frétta af nýju afbrigði kórónuveirunnar sem komið er upp þar í landi og sagt er mun meira smitandi. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur hvatt Evrópulönd til að grípa til harðra aðgerða vegna afbrigðisins, sem þegar sé farið að dreifa sér til annarra landa.

Þannig hafi níu tilfelli þessa afbrigðis veirunnar greinst í Danmörku, eitt í Hollandi og eitt í Ástralíu.

Bæði Holland og Belgía hafa þegar aflýst öllum flugferðum til og frá Bretlandi, og Belgía hefur einnig aflýst lestarferðum á milli. Þá hefur utanríkisráðherra Ítalíu gefið í skyn að gripið verði til aðgerða vegna fregnanna, auk þess sem Frakkland og Þýskaland eru sögð undirbúa lokanir.

Nýja afbrigðið hefur borist hratt manna á milli í Lundúnum og í suðausturhluta Englands og kynnti Boris Johnson forsætisráðherra í gær mjög hertar aðgerðir á svæðinu og er íbúum fyrrnefndra svæða gert að halda sig heima og hitta ekki fólk af öðrum heimilum yfir jólahátíðarnar.

Frétt BBC

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert