Sviðsetti heimildamynd um vændi

Atriði myndarinnar voru mörg hver fölsuð.
Atriði myndarinnar voru mörg hver fölsuð. AFP

Norðurþýska ríkisútvarpið (NDR) tilkynnti í dag að sýningum á heimildamynd um vændi yrði hætt, vegna þess að mörg atriðanna í myndinni voru sviðsett. NDR kom að gerð myndarinnar í samstarfi við aðra aðila og hefur hún unnið til verðlauna í Þýskalandi. Innri rannsókn NDR leiddi í ljós að einhver atriðanna í myndinni væru sviðsett.

Myndin heitir Lovemobil og í henni er kafað ofan í myrkan heim þeirra sem selja vændi í smærri og dreifðari byggðum Þýskalands. Þær vændiskonur og -karlar sem fylgt er eftir stunda viðskipti sín í hjólhýsi.

„Þessi heimildarmynd á að byggjast á áralangri rannsóknarvinnu höfundar en þeir sem myndin hverfist um eru leikarar, sem ekki segja frá raunverulegri reynslu sinni af vændi,“ segir í tilkynningu frá NDR.

Myndin hefur nú verið tekin af streymisveitu NDR og verður hún ekki endursýnd í línulegri dagskrá.

Leikstjóri myndarinnar, Elke Margarte Lehrenkrauss, sagði að sér þætti leitt að hafa ekki tjáð NDR að sum atriði myndarinnar væru leikin. Hún sagði þó efnistök myndarinnar draga upp rétta mynd af raunveruleikanum.

Árið 2018 kom upp álíka mál í Þýskalandi þegar hið virta blað Der Spiegel viðurkenndi að einn þeirra þekktasti blaðamaður, Claas Relotious, hefði ítrekað birt fréttir sem voru á sandi byggðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert