Einkenni Delta-afbrigðisins kunni að vera óhefðbundin

Sýnatökumiðstöð í Bretlandi.
Sýnatökumiðstöð í Bretlandi. AFP

Höfuðverkur, hálssærindi og nefrennsli eru á meðal algengustu einkenna þeirra sem smitast hafa af Delta-afbrigði kórónuveirunnar. 

Tim Spector, sem leitt hefur rannsókn á einkennum Covid-19 í Bretlandi, segir að Delta-afbrigðið geti verið „meira eins og slæmt kvef“ fyrir yngra fólk. Jafnvel þó að einstaklingar verði ekki mikið veikir geti þeir smitað aðra. 

Hin hefðbundnu einkenni Covid-19 sem bent hefur verið á frá upphafi faraldursins eru hósti, hiti og tapað bragð- eða lyktarskyn. Spector segir að umrædd einkenni séu ekki jafn algeng nú og áður, miðað við gögn sem þúsundir smitaðra hafa tilkynnt í sérstakt forrit vegna rannsóknarinnar. 

„Síðan í byrjun maí höfum við skoðað algengustu einkennin hjá þeim sem nota forritið – og þau eru ekki þau sömu og áður, segir Spector við BBC. 

Breytingin virðist tengjast Delta-afbrigðinu, sem greindist fyrst á Indlandi og telur nú 90% staðfestra smita í Bretlandi. Hiti er enn á meðal algengra einkenna en tapað bragð- og/eða lyktarskyn er ekki lengur á meðal tíu algengustu einkenna Covid-19 að sögn Spectors. 

„Þetta afbrigði virðist virka aðeins öðruvísi. Fólk gæti haldið að það væri bara með árstíðabundið kvef og færi áfram í partí og gæti þá smitað í kringum sex aðra. Við höldum að þetta sé stór hluti vandamálsins. Skilaboðin eru að ef þú ert ungur, þá færðu mildari einkenni hvort sem er. Þér gæti liðið eins og þetta væri slæmt kvef eða slappleiki – en vertu heima og farðu í sýnatöku,“ segir Spector.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka