Trump segir aðgerðir Biden óásættanlegar

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, fordæmir hvernig Joe Biden, eftirrennari hans í embætti, hefur staðið að því að fjarlægja bandaríska hermenn frá Afganistan.

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna. AFP

Betra ef hann væri forseti

Trump segir það óásættanlegt að Biden hafi ekki sett nein skilyrði fyrir hvernig herinn yrði dreginn til baka en frá og með 31. ágúst verða engir bandarískir hermenn í Afganistan. Á sama tíma auka talibanar umsvif sín í landinu á miklum hraða en ellefta héraðshöfuðborgin, Herat, féll í dag í hendur þeirra. 

Þá segir Trump að aðgerðin hefði verið „allt öðruvísi og mun farsælli“ ef hann væri enn forseti.

Á forsetatíð Trump í febrúar árið 2020 gerðu Bandaríkjamenn samning við talibana um að hermennirnir yrðu dregnir til baka í skiptum fyrir að talibanar tækju upp friðarviðræður við stjórnvöld í Afganistan, en viðræður hafa staðið yfir í marga mánuði án árangurs.

Þá hétu talibanar að ráðast ekki á Bandaríkin og hagsmuni þeirra og styðja ekki við hryðjuverkahópa svo sem Al-Qaeda.

Hermenn í stjórnarher Afganistan.
Hermenn í stjórnarher Afganistan. AFP

Óttast að Kabúl falli

„Ég átti persónulega viðræður við æðstu leiðtoga talibana þar sem ég lagði þau skilyrði skýrt fram að það sem þeir eru að gera núna yrði óásættanlegt,“ sagði Trump í yfirlýsingu. 

Stjórnvöld í Afganistan hafa nú tapað yfirráðum yfir stærstum hluta norður- og vesturhluta landsins og óttast margir að Kabúl, höfuðborg landsins, muni falla í hendur talibana innan þriggja mánaða.

Talibanar eru súnnímúslímar og réðu ríkjum í landinu frá 1996 þar til þeir lutu í lægra haldi fyrir innrásarher vesturveldanna í kjölfar hryðjuverkaárásanna í Bandaríkjunum árið 2001. Talið er að stríðið í Afganistan hafi leitt til dauða tugi þúsunda manna og gert milljónir heimilislausar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert