Mega opna fyrir bólusetta eingöngu

Ferðamannabátur bundinn við höfn í Hamborg. Í baksýn er Fílharmónía …
Ferðamannabátur bundinn við höfn í Hamborg. Í baksýn er Fílharmónía borgarinnar. AFP

Stjórnvöld í Hamborg hafa ákveðið að leikhús, kvikmyndahús, veitingastaðir og aðrir staðir þar sem fólk kemur saman, eigi þess kost að hleypa aðeins inn bólusettum einstaklingum og fólki sem hefur náð sér af kórónuveirunni og muni þá engar takmarkanir gilda.

Hamborg er fyrsta sambandslandið í Þýskalandi, sem ákveður að bjóða upp á þennan möguleika og var ákvörðunin tekin í gær. Þeir sem ákveða að fara þessa leið þurfa þá ekki að fylgja fyrirmælum um varnir vegna kórónuveirunnar, geta hleypt inn fleiri gestum og þurfa ekki að gæta skyldubundinna fjarlægðartakmarkana.

Á fréttavef Der Spiegel kemur fram að Hamborg hafi tekið sér forustuhlutverk með þessari ákvörðun. Einkaðilar í öðrum sambandslöndum geti vissulega ákveðið að hleypa aðeins inn fólki sem er bólusett eða hefur náð sér líkt og knattspyrnufélagið 1. FC Köln, en því fylgi hins vegar engar undanþágur frá sóttvarnakvöðum líkt og í Hamborg.

Staðir í Hamborg sem ákveða að fara þessa leið munu þó fyrst um sinn þurfa að fylgja fyrirmælum um grímuskyldu og segja borgaryfirvöld að þau muni fylgjast rækilega með því hvort þess sé vandlega gætt að ekki inn fólki, sem hvorki er bólusett, né hefur veikst af kórónuveirunni. Bregðist það bíði háar sektir.

Fylgir að þessar reglur nái ekki til þeirra, sem ekki hafa náð 18 ára aldri næstu sex vikurnar og börn yngri en 12 ára verði undanþegin.

Á vef Der Spiegel er haft eftir Peter Tschentscher, borgarstjóra Hamborgar, að munur sé á því hversu mikið bólusettir og óbólusettir smituðu. Þeir sem væru bólusettir og hefðu veikst af kórónuveirunni og náð sér ættu engan teljandi þátt í útbreiðslu smita. Réttarfarslega væri því ekki hægt að halda til streitu takmörkunum gagnvart þeim vegna þess að þær væru ekki lengur nauðsynlegar í baráttunni við faraldurinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka