Sótt um neyðarleyfi fyrir bólusetningu 5 til 11 ára

Börn hafa smitast í meira mæli af Delta afbrigði kórónuveirunnar.
Börn hafa smitast í meira mæli af Delta afbrigði kórónuveirunnar. AFP

Lyfjaframleiðandinn Pfizer hefur formlega óskað eftir neyðarleyfi fyrir notkun bóluefnis síns gegn Covid-19 fyrir börn á aldrinum 5 til 11 ára. En fleiri börn hafa smitast af Delta afbrigði kórónuveirunnar, en öðrum fyrri afbrigðum. Tilgangurinn með því að bólusetja börn á þessum aldri er sagður vera að geta haldið skólum opnum og í þeirri von að faraldurinn gangi fyrr yfir. AFP-fréttastofan greinir frá.

Í lok september hófu Pfizer og BioNTech, sem framleiða bóluefnið í samstarfi, að senda gögn inn til Matvæla- og lyfjastofnunar Bandaríkjanna (FDA) en í dag var greint frá því á Twitter að formlega hefði verið sótt um neyðarleyfið. „Við höfum skuldbundið okkur til að vinna í samstarfi við FDA að því markmiði að vernda börn gegn þessari alvarlegu heilsuvá,“ segir í tilkynningu frá lyfjafyrirtækjunum.

Jeff Zients, umsjónarmaður Hvíta hússins í viðbrögðum gegn kórónuveirufaraldrinum, sagði í samtali við CNN í kjölfarið að allir gætu verið sammála um að fá öruggt og árangursríkt bóluefni fyrir þennan aldurshóp væri mikilvægt næsta skref í baráttunni gegn veirunni.

Í prófunum á bóluefninu fengu börn tvo 10 míkrógramma skammta af efninu, en eldri hópar hafa fengið 30 míkrógrömm. Sprauturnar voru gefnar með 21 dags millibili.

FDA hefur gefið út að þegar formleg umsókn liggi fyrir muni líklega taka einhverjar vikur að fara yfir gögn, frekar en mánuði.

Bóluefni Pfizer hefur þegar fengið fullt markaðsleyfi í Bandaríkjunum fyrir 16 ára og eldri, en neyðarleyfi er enn í gildi fyrir aldurshópinn 12 til 15 ára.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert