„Stríðið dregur fram það versta og besta í fólki“

Jaroslav og félagar héldu áfram ýmis konar útkeyrslu á nauðsynjavörum …
Jaroslav og félagar héldu áfram ýmis konar útkeyrslu á nauðsynjavörum í gær.

Einn nágranni Karíne fór fyrr á árinu til Suðurskautslandsins þar sem hann stundar vísindarannsóknir. Svo hófst stríðið, en í gær lagði hann af stað heim á ný. Hún segir jafnframt frá óhugnanlegum sögum sem heyrast í Úkraínu um hvernig Rússar skilja við húsnæði í borgum sem voru herteknar. Jaroslav og pabbi hans hafa hins vegar tekið ákvörðun um að selja fjölskyldubílinn sem þau fóru m.a. á nokkrar ferðir um Evrópu. Möguleg efnavopnaárás Rússa er Sergei hins vegar efst í huga.

Við höld­um áfram að heyra frá þeim Jaroslav í borg­inni Ódessa í suður­hluta lands­ins, Ser­gei í Lvív í vest­ur­hluta lands­ins og Kar­íne í borg­inni Karkív í aust­ur­hluta lands­ins, en þau deila með mbl.is upp­lif­un­um sín­um og greina frá því hvað efst er í huga al­mennra borg­ara eft­ir að stríð braust út í landi þeirra.

Karíne í Karkív

Í morgun gat ég ekki gengið langt með hundinn áður en loftvarnarflauturnar fóru af stað og ég skaust aftur heim. Við förum ekki ofan í kjallara eða sprengjubirgi. Húsið sem við búum í var byggt árið 1932 og er með þykka múrsteinsveggi. Húsið hélt í gegnum mikla bardaga í seinni heimstyrjöldinni og hernám Nasista. Ég hef trú á að þetta hús muni verja okkur og við pössum upp á það.

Húsið stendur allavega enn eftir allar þessar stórskotaliðsárásir sem og önnur hús hér í kring, en árásirnar halda reyndar áfram. Núna hristast veggirnir vegna sprenginga þótt þær séu langt í burtu.

Irína er nú stödd í Köln og aðstoðar þar við …
Irína er nú stödd í Köln og aðstoðar þar við að taka á móti flóttafólki.

 

Nokkrir nágrannar okkar hafa ákveðið að flýja og sumir þeirra leyfðu vinum og kunningjum sem komu frá öðrum hættulegri svæðum að búa í íbúðum þeirra ókeypis. Þetta á meðal annars við um Koloskov fjölskylduna, en eiginkonan Irína var sjálfboðaliði árið 2014 þegar Rússar gerðu fyrst árás á austurhéruð Úkraínu og náðu stjórn í hluta héraðanna Luhansk og Donetsk. Hún aðstoðaði þá flóttafólk sem kom til borgarinnar. Ásamt vinkonu sinni hjálpuðu þær mikið til á geðspítölum, meðal annars með að útvega betri mat fyrir sjúklinga og safna peningum.

Nú býr hún ásamt móður sinni og dóttur í Þýskalandi og þar aðstoðar hún nú flóttafólk sem kemur til Kölnar. Eiginmaður hennar er hins vegar langt í burtu, en hann er eðlisfræðingur og í byrjun febrúar fór hann til Suðurskautslandsins þar sem hann starfar sem vísindamaður við úkraínsku rannsóknarstöðina sem nefnd er eftir úkraínska fræðimanninum Vladímír Vernadskí.

Alexander, eiginmaður Irínu, á Suðurskautslandinu, en þangað hefur hann nú …
Alexander, eiginmaður Irínu, á Suðurskautslandinu, en þangað hefur hann nú farið fimm sinnum vegna rannsókna sinna.

 

Maðurinn hennar heitir Alexander og þetta er í fimmta skiptið sem hann fer á Suðurskautið. Tvisvar fór hann í heilt ár, en í þrjú skipti var hann í styttri tíma, allt niður í 1-2 mánuði. Í dag á hann svo að leggja af stað heim á leið.

Þegar Irína vann sem sjálfboðaliði á lestarstöðinni hér í Karkív árið 2014 hitti hún Nadíu, en þessi Nadía býr nú í íbúð Irínu og Alexanders og vinnur sem sjálfboðaliði við að aðstoða herinn. Meðal annars útbýr hún net í felulitum sem hægt er að nota til að leynast innrásarliðinu.

Nadía og fleiri konur sem hafa unnið að því að …
Nadía og fleiri konur sem hafa unnið að því að útbúa net í felulitum fyrir hermenn.

 

Allt sem er í gangi núna í Úkraínu er mjög sorglegt. Loftvarnarflauturnar hljómuðu þrisvar í dag. Þá var tilkynnt að sprengja ætti fjölda skriðdrekasprengja sem Rússar höfðu komið fyrir í og við Karkív. Sprengingarnar heyrðust við og við í dag. Þá hafa heyrst sögur af því að Rússar hafi komið fyrir sprengjum í ísskápum og annars staðar á heimilum fólks sem hefur snúið aftur til borgar sem úkraínski herinn hefur frelsað á ný. Innrásarhermennirnir stálu einnig öllu steini léttara, jafnvel nærfötum fólks.

Heimurinn hefur lært að Rússar og Rússland eru holdgervingur hins illa og að íbúar Úkraínu reyna að gera sitt allra besta. Stríðið dregur fram það versta og besta í fólki.

Jaroslav í Ódessu

Vaknaði strax klukkan sex í morgun og kom mér fljótlega af stað þangað sem við hittumst. Þar var hins vegar allt lokað og ég náði því smá auka tíma til að sofa áður en skipulagning dagsins hófst. Við undirbjuggum nokkra pakka fyrir hermenn sem gæta borgarinnar. Svo vorum við líka með sendingu sem fór til hesta sem eru enn við skeiðbrautina hér í borginni. Þá undirbjuggum við meira en 40 pakka af þurrmat. Allt gekk smurt.

Ég og pabbi ákváðum að selja bílinn okkar, en síðustu mánuði hefur hann ekkert verið notaður. Þetta er góður bíll og ég mun alltaf muna eftir lyktinni sem var í honum þegar við eignuðumst hann fyrst. Pabbi hafði farið til Þýskalands til að kaup hann. Ég á svo margar minningar frá þessum bíl, en svona breytist allt og hefðbundnu hlutirnir eru orðnir hluti af fortíðinni. Þegar við tókum ákvörðun um að selja bílinn ræddum við um nokkrar ferðir sem við fjölskyldan áttum saman um Evrópu á bílnum.

Þetta var einn skilvirkasti dagurinn hingað til og á sama tíma var þetta hvað þægilegasti dagurinn þegar kom að umferð. Við vorum ekki seinir með neina sendingu og ekkert gleymdist. Nú erum við að reyna að safna saman aðföngum til að geta sent á svæði umhverfis borgina og nokkra staði sem þurfa mikla hjálp. Við stoppum ekki neitt og allir eru að reyna að gera sitt besta.

Sergei í Lvív

Fertugasti og sjöundi dagur stríðsins. Átti stuttan dag í vinnunni og það var ánægjulegt að sjá fleiri og fleiri viðskiptavini koma til okkar. Framtíð efnahags landsins er hins vegar í algjörri óvissu og nýjustu tölur gefa ekki tilefni til bjartsýni.

Það er áfram kalt í veðri, alltof kalt miðað við að það er apríl. Nennti því ekki að fara út að ganga. Samkvæmt fréttunum er aftur búist við stórri árás á hverri stundu. Svo fréttum við af því að þessir rússnesku hryðjuverkamenn hafi notað efnavopn í Maríupol – mögulega sarín. Við hverju má búast næst? Lítilli kjarnorkusprengju á Kænugarð? Þeir stráfella okkur og virðast vera tilbúnir að fella hver einn og einasta íbúa, þrátt fyrir að þeir vita að ávinningurinn verður enginn. Blóðug átök framundan, aftur og aftur. Jafnvel þótt við vinnum munum við gjalda þess dýru verði.

Staðan: U2 – Sunday bloody sunday

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka