Birta upptökur frá Kongsberg-árásinni

Villaroel með ör í baki.
Villaroel með ör í baki. Ljósmynd/Norska lögreglan

Lögreglan í suðausturumdæminu í Noregi hefur birt upptökur úr tveimur öryggismyndavélum matvöruverslunarinnar Coop í bænum Kongsberg frá kvöldi 13. október í fyrra, sem öruggt er að fáum íbúum bæjarins líður úr minni í bráð. Myrti Espen Andersen Bråthen fimm manns og særði þrjá þetta kvöld, er hann fór um bæinn vopnaður boga og örvum auk eggvopns. Um er að ræða mannskæðustu árás í Noregi frá því 22. júlí 2011.

fórnar

Lögreglan hafði ekki hugsað sér að birta upptökurnar en að sögn Ola B. Sæverud, lögreglustjóra, var ákvörðun tekin um birtingu eftir að sérfræðingar við Lögregluháskólann höfðu farið yfir viðbrögð lögreglu í Kongsberg þetta kvöld og skilað af sér skýrslu.

Með ör í bakinu

„Núna, þegar skýrslan liggur fyrir, höfum við engin rök fyrir því að birta ekki þetta efni. Við gerum okkur ljóst að almenningur er forvitinn um einmitt þennan hluta aðgerðarinnar,“ segir Sæverud við norska ríkisútvarpið NRK. Lögreglunni var legið á hálsi fyrir að hafa misst af Bråthen eftir að hann hljóp út um neyðarútgang verslunarinnar og ekki fundið hann á ný fyrr en hann hafði orðið fólkinu að bana.

Á hljóðrás annars myndskeiðsins má heyra í brunaviðvörunarkerfi verslunarinnar, sem Bråthen virkjaði frá lager hennar. Annars staðar má sjá lögregluþjóninn Rigoberto Villarroel með ör í bakinu en Bråthen tók þegar að skjóta af vopni sínu er hann sá til lögreglu sem fór í fyrstu inn í verslunina án varnarbúnaðar á borð við skotheld vesti.

Hörfaði lögregla því undan örvahríðinni og sætti árásarmaðurinn þá lagi, forðaði sér út um neyðarútganginn og hvarf sjónum lögreglu í um hálfa klukkustund.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert