Vopnahlé á milli Armeníu og Aserbaídsjan

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands.
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands. AFP

Rússar segjast hafa haft milligöngu um vopnahlé á milli Armeníu og Aserbaídsjan.

Fram kemur í tilkynningu frá utanríkisráðuneyti Rússlands að það vonist eftir því að vopnahléinu verði framfylgt að fullu. Einnig kemur þar fram að ráðuneytið sé „mjög áhyggjufullt“ vegna aukinnar spennu á milli landanna.

Forsætisráðherra Armeníu greindi frá því snemma í morgun að hersveitir Asera væru að reyna að komast inn á landsvæði Armena.

Tugir hafa fallið

Að minnsta kosti 49 armenskir hermenn hafa fallið í átökunum. Þau eru þau mestu á milli landanna síðan þau fóru í stríð árið 2020 vegna héraðsins Nagorno-Karabakh.

„Eins og staðan er núna hafa 49 (hermenn) verið drepnir og því miður er þetta ekki endanleg tala,“ sagði Nikiol Pashinyan, forsætisráðherra Armaníu, á þingi landsins í höfuðborginni Jerevan.

Hann sagði að dregið hefði úr átökum eftir stórskotahríð Asera í nótt.

Tvær styrjaldir

Nágrannalöndin hafa háð tvær styrjaldir, fyrst á tíunda áratug síðustu aldar og síðan árið 2020 vegna Nagorno-Karabakh. Svæðið er undir stjórn Armena en það er þó formlega hluti af Aserbaídsjan.

Í sex vikna átökum haustið 2020 létust yfir 6.500 manns og lauk þeim með vopnahléi sem Rússar höfðu milligöngu um.

Samkvæmt samningnum sem þá var gerður gáfu Armenar eftir landsvæði sem þeir höfðu ráðið yfir í áratugi og rússnesk stjórnvöld sendu um 2.000 friðargæsluliða á svæðið.

Armenskir aðskilnaðarsinnar í Nagorno-Karabakh slitu sig fyrst frá Aserbaídsjan þegar Sovétríkin liðuðust í sundur árið 1991. Alls hafa um 30 þúsund manns fallið í átökum vegna deilunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert