Gagnrýndur fyrir að þamba bjór (myndskeið)

Macron á Stade de France í gær.
Macron á Stade de France í gær. AFP/Julien de Rosa

Franski forsetinn Emmanuel Macron olli fjaðrafoki í heimalandi sínu eftir hafa verið myndaður við að drekka bjórflösku í einum sopa með ruðningsleikmönnum Toulouse eftir að þeir unnu frönsku deildina um helgina.

Franskar sjónvarpsstöðvar og samfélagsmiðlar hafa sýnt myndskeið þar sem forsetanum er rétt flaska af Corona-bjór í búningsklefa Toulouse eftir leik á laugardag á þjóðarleikvanginum Stade de France.

Eftir að hafa verið hvattur til að drekka hana í einum sopa lét Macron tilleiðast og þambaði bjórinn á 17 sekúndum við mikil fagnaðarlæti leikmannanna.

„Eitruð karlmennska hjá pólitískum leiðtoga á einni mynd,“ tísti þingkonan Sandrine Rousseau úr Græningjaflokknum.

Þingmaðurinn Jean-Rene Cazeneuve svaraði: „Forseti sem fagnar með 23 leikmönnum og tekur þátt í hefðum þeirra. Það er allt og sumt.“

Macron er mikill íþróttaáhugamaður og er þekktur fyrir að heimsækja búningsherbergi franskra íþróttaliða. Í desember, eftir að franska karlalandsliðið í knattspyrnu tapaði úrslitaleiknum á HM í Katar, kom hann inn í klefa og hélt tilfinningaþrungna ræðu þar sem hann stappaði stálinu í leikmennina.

Eins og flestir franskir forsetar sést Macron oftast með vínglas í hendi í stað bjórs. Eitt sinn sagðist hann drekka eitt vínglas með hádegismatnum og annað á kvöldin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert