Framkvæmdastjórn ESB fagnar rannsókn á UNRWA

Palestínumenn við inngang Vísindaháskólans í Ramallah á Vesturbakkanum sem Palestínuflóttamannahjálp …
Palestínumenn við inngang Vísindaháskólans í Ramallah á Vesturbakkanum sem Palestínuflóttamannahjálp SÞ, UNRWA, rekur. AFP/Jaafar Ashtiyeh

„Evrópusambandið er einn stærsti bakhjarl mannúðar- og þróunaraðstoðar við Palestínumenn á Gasasvæðinu,“ segir í yfirlýsingu Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um mál Palestínuflóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNRWA, eftir að grunur kviknaði um ólögmæta háttsemi starfsmanna hennar við innrás Hamas-hryðjuverkasamtakanna í Ísrael 7. október.

Segir framkvæmdastjórnin að aðstoð á hennar vegum verði fram haldið með fulltingi samstarfsstofnana hennar þrátt fyrir téðar grunsemdir en ekki sé gert ráð fyrir að frekari frekari greiðslur renni til UNRWA þar til í febrúarlok.

UNRWA fallist á rannsókn sérfræðinga

Muni framkvæmdastjórnin ræða frekari greiðslur til stofnunarinnar í ljósi þeirra alvarlegu ásakana sem fram komu á miðvikudaginn í síðustu viku í garð starfsfólks hennar. Muni niðurstaða þeirra umræðna velta á því hverju rannsókn Sameinuðu þjóðanna á málinu skili. Fagni framkvæmdastjórnin rannsókninni.

Enn fremur kveðst hún vænta þess að UNRWA fallist á rannsókn sérfræðinga á vegum ESB, þar á meðal á þeim ráðstöfunum og eftirlitskerfum sem stofnunin hefur með hugsanlegri aðild starfsfólks hennar að hryðjuverkastarfsemi. Þá vænti framkvæmdastjórnin þess að UNRWA efli rannsóknardeild sína í innri málefnum, DIOS, sem sé lykilatriði þess máls sem til skoðunar er.

Að lokum hvetur framkvæmdastjórnin til bakgrunnsskoðunar alls starfsfólks UNRWA svo varpa megi frekara ljósi á hugsanlega þátttöku þess í árásinni á Ísrael.

Yfirlýsing Framkvæmdastjórnar ESB

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert