Dauðvona og sleppur við fangelsisdóm

Heimsfrægu hælaskórnir hennar Dóróteu.
Heimsfrægu hælaskórnir hennar Dóróteu. AFP/Karen Bleier

Aldraður Bandaríkjamaður sem stal hælaskóm sem Judy Garland klæddist í hlutverki Dóróteu, í kvikmyndinni Galdrakarlinn frá Oz, þarf ekki að sitja inni fyrir glæpinn. 

Maðurinn sem nú er 76 ára gamall og ber nafnið Terry Martin stal inniskónum árið 2005. Nítján árum síðar hefur loksins verið kveðinn upp dómur í málinu og Martin dæmdur til skilorðsbundins fangelsis í eitt ár fyrir þjófnaðinn. 

Glimmerskónum stolið af Judy Garland-safninu 

New York Times greinir svo frá að Martin sé nú á dvalarheimili og eigi aðeins sex mánuði ólifaða.

Glimmerskónum var stolið af Judy Garland-safninu í heimabæ leikkonunnar, Grand Rapids í Minnesota. Voru þeir síðasti stuldur Martin sem hafði um tíma reynt að snúa við blaðinu eftir að hafa afplánað fangelsisdóm fyrir þjófnað.

Ástæða þess að Martin ákvað að stela skónum var sú að hann trúði því að pallíetturnar væru alvöru rúbínar, því sá hann sér gott til glóðarinnar og hugðist selja. En að sögn þeirra sem þekkja Martin hefur hann aldrei séð hina ástsælu kvikmynd sem er frá árinu 1939. 

Martin játaði sök 

Það var FBI sem lagði hald á skóna árið 2018 en það var þó enginn ákærður í tengslum við málið á þeim tíma. Það var ekki fyrr en í maí á síðasta ári sem Martin var ákærður fyrir þjófnað á einum stærsta minjagrip í bandarískri kvikmyndasögu. 

Martin játaði síðan sök í október og dómur var kveðinn upp í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert