Uber hlýtur sekt í Hollandi

170 franskir ökumenn Uber kvörtuðu yfir meðferð Uber á persónuupplýsingum.
170 franskir ökumenn Uber kvörtuðu yfir meðferð Uber á persónuupplýsingum. Ljósmynd/Colourbox

Hollenskir eftirlitsaðilar sektuðu í dag leigubílaþjónustuna Uber um 10 milljónir evra, eða tæplega einn og hálfan milljarð íslenskra króna, vegna skorts á gagnsæi varðandi meðferð persónuupplýsinga ökumanna.

Persónuvernd Hollands beitti sektinni eftir að 170 franskir ökumenn Uber kvörtuðu til franskra mannréttindasamtaka. Höfuðstöðvar Uber í Evrópu eru í Hollandi og því var kvörtunin tekin fyrir þar.

Flókið að óska eftir afriti

Persónuvernd komst að því að Uber hefði gert það óþarflega flókið fyrir ökumenn fyrirtækisins að leggja fram beiðnir um að skoða eða fá afrit af persónulegum gögnum sínum að því er fram kom í tilkynningu frá stofnuninni.

Upplýsingar um aðgang að gögnum „var staðsett djúpt í smáforritinu og dreift á ýmsar valmyndir,“ segir í tilkynningu um málið.

„Að auki tilgreindi Uber ekki í persónuverndarskilmálum sínum hversu lengi fyrirtækið geymir persónuupplýsingar ökumanna sinna eða hvaða sérstöku öryggisráðstafanir það gerir þegar þessar upplýsingar eru sendar til aðila í löndum utan evrópska efnahagssvæðisins“.

Uber áfrýjar

Í tilkynningunni kemur fram að Uber hafi gert ráðstafanir til að bæta aðgengi að upplýsingum og hefur fyrirtækið áfrýjað ákvörðuninni. Persónuvernd Hollands taldi Uber þó einungis hafa lagað fjölda atvika tengda lítilsháttar kvörtunum en vísað á bug yfirgnæfandi meirihluta kvartana ökumannanna. 

„Við erum staðráðin í að bæta gagnabeiðnaferli okkar og munum alltaf vinna á uppbyggilegan hátt með yfirvöldum til að bregðast við áhyggjum þeirra,“ segir í tilkynningunni frá Uber.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert