Skáldaði upp fjölda hryllingssagna af innrás Hamas

Svona var umhorfs í samyrkjubúinu Beeri daginn eftir innrás Hamas …
Svona var umhorfs í samyrkjubúinu Beeri daginn eftir innrás Hamas sem kostaði á tólfta hundrað mannslíf. AFP/Gil Cohen-Magen

Rannsókn ísraelska dagblaðsins Haaretz á starfsemi ísraelska viðbragðsaðilahópsins ZAKA, sem gerði út fjölda sjálfboðaliða til að fjarlægja lík fórnarlamba Hamas-hryðjuverkasamtakanna eftir innrásina í október, hefur leitt í ljós að hópurinn notaði líkin sem „leikmuni“ auk þess að senda frá sér villandi upplýsingar með vitund og vilja og vanrækja þau störf sem honum voru fengin.

Frá þessu greinir Haaretz í umfangsmikilli úttekt á málinu og nefnir dæmi af tíu ZAKA-mönnum sem sátu í makindum við hlið líks sem þeim var ætlað að færa inn í sjúkrabifreið.

Er þeir voru inntir eftir því hvers vegna þeir sinntu ekki verkinu, bifreiðin stæði handan götunnar, svöruðu þeir því til að það yrði gert síðar.

Mótmælendur hliðhollir Palestínu bera þjóðfána landsins á Friðartorginu í Washington …
Mótmælendur hliðhollir Palestínu bera þjóðfána landsins á Friðartorginu í Washington nú í janúar. AFP/Getty Images/Samuel Corum

Skuldum hlaðin samtök

Greinir Haaretz frá því – og byggir á frásögnum sjónarvotta – að sjálfboðaliðarnir hafi notfært sér aðstöðu sína til að taka upp myndskeið, sem sýndu meðal annars líkið, og nýtt þau í þeim tilgangi að safna fé til styrktar ZAKA.

Nema skuldir hópsins – eða samtakanna, ZAKA byggir að miklu leyti á vinnuframlagi sjálfboðaliða, starfar í skjóli ríkisstjórnar Ísraels og er deilt niður á lögregluumdæmi landsins – milljónum sikla, ísraelska gjaldmiðilsins, og hefur rannsókn Haaretz afhjúpað fjáröflunarstarfsemi sem gengur út á misnotkun jarðneskra leifa fórnarlamba innrásarinnar og dreifingu villandi upplýsinga með það fyrir augum að ýta undir greiðsluvilja þeirra sem sjá og lesa.

Hefur blaðið enn fremur flett ofan af samstarfi ZAKA við IDF, ísraelska herliðið sem haft hefur töglin og hagldirnar á hernumdu svæðunum í Austur-Jerúsalem síðan Ísraelar lögðu þau undir sig í sex daga stríðinu árið 1967.

Hafi IDF fengið ZAKA til að sinna björgunaraðgerðum sem í raun hefðu átt að vera í höndum heimavarnaliðsins Pikud HaOref, eða PAKAR, og þegið að auki greiðslur frá sérstöku varnarmálaráðuneyti landsins sem fer með varnarmál á hernumdu svæðunum.

Kveðst talsmaður PAKAR, sem Haaretz ræðir við, ekki hafa neinar skýringar á reiðum höndum á því hvers vegna IDF nýtti heimavarnaliðið ekki til björgunarstarfanna fremur en ZAKA.

New York-búi heldur á mynd af níu ára gömlum dreng …
New York-búi heldur á mynd af níu ára gömlum dreng sem Hamas-líðar eru sagðir hafa haft á brott með sér ásamt fjölda annarra sem þeir héldu í gíslingu vikum saman. AFP/Getty Images/Michael M. Santiago

Barn stungið í móðurkviði – uppspuni

Kveðast heimildarmenn úr röðum heilbrigðisstarfsmanna, sem Haaretz hefur haft tal af, hafa fengið líkpoka í hendurnar frá ZAKA-liðum sem engin fylgiskjöl voru með auk þess sem líkamsleifar fleiri en eins fórnarlambs hafi verið að finna í sumum pokanna. Hafi einn pokinn reynst innihalda tvær höfuðkúpur, í öðrum hafi verið handleggir sem augljóslega hafi ekki tilheyrt sama líkama.

Enn fremur hefur rannsókn Haaretz leitt í ljós skipulagðar ferðir ZAKA-manna með stuðningsaðila og aðra borgara um innrásarsvæðið þar sem Hamas-liðar létu sverfa til stáls nóttina í október og æ fleiri hryllingsatvik sem aldrei áttu sér stað hafa komið upp úr kafinu.

Til dæmis um það má nefna frásögn eins sjálfboðaliða ZAKA af líki þrítugrar konu sem fundist hafi í blóðpolli og hún verið með barni þegar hún lést. Hafi fóstrið verið stungið í móðurkviði og konan að lokum skotin í höfuðið.

Sjálfboðaliði á vegum ZAKA gengur út úr hálfbrunnu húsi skömmu …
Sjálfboðaliði á vegum ZAKA gengur út úr hálfbrunnu húsi skömmu eftir innrásina. Samtökin hafa nú orðið uppvís að því að nota lík sem leikmuni og hagræða sannleikanum. AFP/Ronaldo Schemidt

Hefur yfirmaður í ZAKA viðurkennt það við Haaretz að framangreint atvik hafi aldrei gerst og samtökum hans sé kunnugt um það. Mun sami sjálfboðaliði hafa skáldað sögu um tuttugu börn sem hafi verið limlest og myrt í innrásinni. Komst allt saman upp þegar hann notaði tvær mismunandi staðsetningar í tveimur frásögnum af þessu meinta fjöldamorði.

ZAKA hefur áður sætt ásökunum um dreifingu rangra upplýsinga. Í desember 2022 komst Haaretz á snoðir um að samtökin hefðu ýkt fjölda sjálfboðaliða sinna til að skara eld að eigin köku í formi fjárframlaga og styrkja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert