Joe Biden fordæmir múslimaandúð

Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Joe Biden Bandaríkjaforseti. AFP/Mandel Ngan

Joe Biden Bandaríkjaforseti fordæmir múslimaandúð í kjölfar heimsóknar sinnar til Michigan, þar sem búa hlutfallslega flestir Arabar saman borið við önnur ríki Bandaríkjanna.

„Bandaríkjamenn vita að það er rangt að kenna hópi fólks um orð fárra,“ skrifar Biden á samfélagsmiðlinum X, en forsetinn fór í heimsókn til Michigan á fimmtudag.

„Það er einmitt það sem getur leitt til múslimaandúðar og haturs gegn Aröbum og það ætti ekki að gerast í Dearborn – eða neinum bandarískum bæ,“ bætti hann við en um 50% íbúa í borginni Dearborn eru Arabar.

Biden fékk frekar kaldar móttökur frá Dearborn-búum á dögunum, þar sem mótmælendur ásökuðu forsetann um að styðja þjóðarmorð á Gasaströndinni en þar hefur stríð geisað frá 7. október. 

„Jihad-höfuðborg Ameríku“

CNN greinir frá því að Abdullah H. Hammoud, bæjarstjóri Dearborn, hafi látið auka lögregluviðveru við bænahús múslima í bænum.

Hann segir við miðilinn að ákvörðun hafi verið tekin vegna þess að Wall Street Journal birti skoðanapistil með yfirskriftinni „Velkomin til Dearborn, Jihad-höfuðborgar Ameríku“. Pistilinn ritaði Steven Stalinsky, en hann er forstjóri MEMRI, sem eru frjáls fjölmiðlarannsóknarsamtök í málefnum Mið-Austurlanda.

Bæjarstjórinn gagnrýndi WSJ á samfélagsmiðlinum X og kallaði skoðanapistil Stalinsky „fordómafullan“ og „sorp“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert