„Þjóðin stendur við bakið á ykkur“

Joe Biden forseti Bandaríkjanna heimsótti Baltimore.
Joe Biden forseti Bandaríkjanna heimsótti Baltimore. AFP/Anna Moneymaker

Joe Biden forseti Bandaríkjanna hefur heitið því að gera allt í sínu valdi til að endurreisa Francis Scott Key-brúna í Baltimore.

Brúin féll í síðasta mánuði með þeim afleiðingum að sex manns létu lífið.

Biden heimsótti Baltimore fyrr í dag þar sem hann sagðist ætla að „hreyfa himin og jörð“ til þess að endurbyggja brúna. 

Skipið skall á brúarstólpa og sex létu lífið í slysinu.
Skipið skall á brúarstólpa og sex létu lífið í slysinu. AFP

Heitir því að opna höfnina fyrir lok maí 

„Ég er hingað kominn til þess að láta ykkur vita að þjóðin stendur við bakið á ykkur,“ sagði Biden í ávarpi sínu í borginni. Brúin hvílir enn á fragtskipinu sem felldi hana. 

Baltimore-höfnin er ein sú mikilvægasta í Bandaríkjunum og hrun brúarinnar hefur komið í veg fyrir umferð skipa til og frá höfninni.

Biden hefur heitið því að ryðja farveg fyrir nýtt sund að höfninni og áætlar að höfnin muni opna að nýju fyrir lok maí.  

Fjarlægja þarf brúna og búta hana niður

„Við munum redda fjármagni í þetta,“ sagði Biden og bætti við: „Við munum hreyfa himin og jörð til þess að endurbyggja þessa brú eins óðfluga og hægt er.“

Þeir sem létu lífið voru innflytjendur frá Mexíkó, Gvatemala, El Salvador og Hondúras. Biden heiðraði minningu þeirra í heimsókn sinni til Baltimore. 

Áætlaður kostnaður við endurbyggingu brúarinnar eru nokkrir milljarðar bandaríkjadala og verkefnið sjálft er umfangsmikið. 

Fyrir það fyrsta þarf að fjarlægja brúna og búta hana niður, og fjarlægja fragtskiptið sem var að ferja um 4.700 gáma þegar það skall á brúnni.

Þar á eftir þarf að endurbyggja brúna sem er 64 kílómetrar að lengd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert