Vill breytingar á „næstu klukkustundum eða dögum“

Biden og Netanjahú áttu í löngu og sennilega spennuþrungnu símtali …
Biden og Netanjahú áttu í löngu og sennilega spennuþrungnu símtali í dag. Samsett mynd/AFP

Bandaríkin krefjast þess að Ísraelar leyfi frekari innflutning hjálpargagna á Gasa innan við næstu klukkustundir eða daga. Bandaríkjaforseti hefur varað forsætisráðherra Ísraels við að þörf sé á stórum breytingum á því hvernig stríðinu er háttað.

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði í símtali við Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, í dag að árásir á hjálparstarfsmenn væru „óviðunandi“. Forsetinn virðist einnig hafa hótað því að setja á sérstök skilyrði um framtíðarstuðning Bandaríkjanna við Ísrael, að því er fram kemur í tilkynningu frá Hvíta húsinu.

Hann mun þá einnig hafa sagt að Ísraelar þyrftu að hrinda í framkvæmd markvissum aðgerðum til að takast á við mannúðarkrísuna á Gasaströndinni.

„[Biden] sagði að stefna Bandaríkjanna með tilliti Gasa myndi ráðast af mati okkar á því hvort Ísraelar gríptu tafarlaust til þessara ráðstafana,“ segir í tilkynningu Hvíta hússins.

Hernaðarstuðningur enn „brynvarinn

Aftur á móti er hernaðarstuðningur við Ísrael enn „brynvarinn“ (e. ironclad) að sögn John Kirby, þjóðaröryggisráðgjafa Hvíta hússins. Hann greindi einnig frá því að Biden finni til „aukinnar gremju“ í garð ísraelskra stjórnvalda.

„Það sem við erum að horfa til og vonumst til að sjá hér á næstu klukkustundum og dögum er að mannúðaraðstoð aukist til muna, fleiri landamærastöðvar opnist og að ofbeldi gegn almennum borgurum og þá sérstaklega að það dragi úr hjálparstarfsmönnum,“ sagði Kirby við blaðamenn í dag.

Hann áréttaði aftur á móti: „Okkar stuðningur við sjálfsvörn Ísraels er enn brynvarinn. […] Þeir eru að horfa upp á fjölda ógna, og Bandaríkin munu ekki ganga burt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert