Myndir: Hrunið mun raska flutningum til Bandaríkjanna

Gámaskipið Dali rakst á brúna yfir Baltimore-höfn, með skelfilegum afleiðingum.
Gámaskipið Dali rakst á brúna yfir Baltimore-höfn, með skelfilegum afleiðingum. AFP/Roberto Schmidt

Um brúna sem hrundi í Baltimore í nótt fara um 31 þúsund farþegar á degi hverjum og fer brúin yfir eina umsvifamestu höfn Bandaríkjanna.

Brúin heitir eftir eftir Francis Scott Key, skáldinu sem samdi ljóðlínur bandaríska þjóðsöngsins.

Gámaskipið Dali felldi brúna í Baltimore á einu andartaki.
Gámaskipið Dali felldi brúna í Baltimore á einu andartaki. AFP/Roberto Schmidt

Ein mikilvægasta höfn Bandaríkjanna

Brúin hrundi í nótt, nær strax eftir að gámaskip rakst á hana. Gert er ráð fyrir að hrun brúarinnar geti valdið töluverðum röskunum á flutningum þar sem brakið úr henni lokar nú innsiglingunni í höfnina í Baltimore.

Á myndinni sjást greinilega afleiðingar áreksturs gámaskipsins Dali á brúna …
Á myndinni sjást greinilega afleiðingar áreksturs gámaskipsins Dali á brúna yfir Baltimore-höfn. AFP/Roberto Schmidt

Á síðasta ári fóru um 52 milljónir tonna innflutts varnings um höfnina, að andvirði um 80 milljarða bandaríkjadala. Þetta kom fram í yfirlýsingu frá ríkisstjóra Maryland, Wes Moore.

Baltimore er dýpsta höfnin á Chesapeake-flóa. Hvergi er fleiri bílum og minni vinnuvélum skipað upp í Bandaríkjunum en einmitt þar, auk þess sem aðrar vörur eins og sykur fara gjarnan um þá höfn.

Mörg skemmtiferðaskip nota höfnina

Höfnin í Baltimore er níunda mikilvægasta höfnin í Bandaríkjunum, bæði þegar metið er umfang innflutningsvara og verðmæti þeirra. 15 þúsund manns starfa við hafnartengd störf og eru afleidd störf talin um 140 þúsund.

Hér sést hvernig burðarvirki brúarinnar liggur í höfninni í Baltimore.
Hér sést hvernig burðarvirki brúarinnar liggur í höfninni í Baltimore. AFP/Roberto Schmidt

Um 50 skipafélög nota höfnina á ári hverju og telja komur í höfnina um 1.800 á ári hverju.

Höfnin í Baltimore er ekki bara mikilvæg í vöruflutningum heldur einnig fyrir skemmtiferðaskip. Um 440 þúsund farþegar lögðu úr höfn frá Baltimore á síðasta ári.

Viðskiptaráð Maryland hefur sagt að langvarandi lokun hafnarinnar muni óhjákvæmilega trufla vöruviðskipti.

Þótt brúin hafi hrunið í höfnina stendur hluti akbrautar hennar …
Þótt brúin hafi hrunið í höfnina stendur hluti akbrautar hennar enn. AFP/Mandel Ngan


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert