Trump hafður að háði í ræðu Bidens

Frá viðburðinum sem haldinn var í gær.
Frá viðburðinum sem haldinn var í gær. AFP/Jim Watson

Joe Biden Bandaríkjaforseti skaut föstum skotum á mótframbjóðanda sinn Donald Trump er hann ávarpaði iðnaðarmenn á viðburði sem haldinn var í Washington í gær.

Rifjaði forsetinn upp ummæli Trumps á tímum heimsfaraldurs Covid-19 um hvernig mætti verjast kórónuveirunni með því að sprauta sig með klór. Sagði Biden að klórinn hefði farið rakleiðis í hárið á Trump. 

„Munið þegar hann var að reyna að eiga við Covid... Hann mælti með því að sprauta smá klór í æðarnar,“ sagði Biden.

„Hann hitti þó ekki, klórinn fór allur í hárið hans,“ gantaðist forsetinn og uppskar mikinn hlátur viðstaddra.

Rifjaði upp ummælin á X

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Biden gerir grín að þessum ráðleggingum Trumps. Fyrr í vikunni deildi hann myndskeiði af ummælunum sem Trump lét falla á blaðamannafundi í Hvítahúsinu 23. apríl 2020.

„Ekki sprauta ykkur með klór. Og ekki kjósa manninn sem sagði ykkur að sprauta ykkur með klór,“ ritaði forsetinn á X, áður Twitter.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka