Lofar „öruggri flóttaleið“ frá Rafah

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael.
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael. AFP/Ronen Zvulun

Ísraelsher mun hefja sókn á borgina Rafah í suðurhluta Gasa þrátt áhyggjur víða um heim um þá ógn sem gæti fylgt sókninni. Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraels lofaði í sjónvarpsviðtali í dag að útvega „örugga flóttaleið“ fyrir óbreytta borgara.

Borg­in hef­ur dregið til sín fjölda fólks á flótta frá átök­un­um og þar er nú um ein millj­ón manns, það er að segja um helmingur íbúa Gasa-strandarinnar. 

„Sigur er innan seilingar. Við ætlum að gera það. Við ætlum að ná hryðjuverkasveitum Hamas sem eru eftir í Rafah, sem er síðasta vígið,“ sagði Netanjahú og bætti við að Ísraelsher myndi útvega örugga flóttaleið fyrir almenna borgara. 

Borgin liggur við landamæri Egyptalands og hafa meðal annars íslenskar konur aðstoðað palestínskar fjölskyldur við að komast yfir landamærin.

„Ólýsanlegt mannúðarslys“

Víða eru tjöld flóttamanna í borginni. Hamas hafa varað við því að „tugir þúsunda manna“ gætu látist í átökunum.

Þá hefur Joseph Borell, ut­an­rík­is­mála­stjóri Evr­ópu­sam­bands­ins, varað við því að sóknin gæti leitt til „ólýsanlegs mannúðarslyss“. 

Tjöld flóttamanna í Rafha.
Tjöld flóttamanna í Rafha. AFP/Mahmud Hams

Bandaríkjamenn segjast ekki styðja við sóknina inn í Rafha ef aðgerðin verður ekki rétt skipulögð. Þá geti sóknin leitt til „hörmunga“.

„Nóg af svæði“ norður af Rafha

Spurður hvert íbúar Rafha eigi að fara svaraði Netanjahú að þeir eigi að fara á svæði norður af Rafha. „Nóg af svæði þar en við erum að útfæra það nánar.“

Netanjahú sagði að þeir sem vilji ekki að sóknin eigi sér stað séu að segja að Ísrael eigi að tapa stríðinu og halda lífi í Hamas. 

Samkvæmt tölum Hamas hafa rúmlega 28 þúsund Palestínumenn látist í stríðinu, þar á meðal konur og börn. Netanjahú segir töluna hins vegar vera mun lægri. 

Hann telur að Ísraelsher hafi drepið og sært fleiri en 20 þúsund hryðjuverkamenn Hamas, þar á meðal séu um 12 þúsund hermenn Hamas. Hann skilgreindi ekki nánar muninn á hryðjuverkamönnum og hermönnum. 

Palestínskar stúlkur í Rafha.
Palestínskar stúlkur í Rafha. AFP/Mohammed Abed
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert