Fannst látinn í fangaklefa

Grunaði fannst látinn í klefa sínum í Justizvollzugsanstalt-fangelsinu í Duisburg …
Grunaði fannst látinn í klefa sínum í Justizvollzugsanstalt-fangelsinu í Duisburg þar sem hann sat í gæsluvarðhaldi en aðalmeðferð í máli hans átti að hefjast þar í borginni 10. apríl. Ljósmynd/Justizvollzugsanstalt in Duisburg

Tæplega þrítugur Þjóðverji, sem sat í gæsluvarðhaldi, grunaður um að hafa myrt kærustu sína í fríi í Noregi í október, fannst látinn í fangaklefa sínum í Duisburg á föstudaginn og hafa þýsk lögregluyfirvöld nú hafið rannsókn málsins.

Vísaði maðurinn lögreglu á lík konunnar, sem var 24 ára gömul á dánarstundu, við Falningsjøen í Tynset í Innlandet-fylki 18. október. Bar líkið þess merki að konan hefði verið skotin tvisvar sinnum og leiddi krufning í ljós að fyrra skotið dró hana til dauða 3. eða 4. október. Enn fremur hafði tilraun verið gerð til að kveikja í líki hennar.

Skýringin misklíð í Svíþjóð

Daginn fyrir líkfundinn hafði lögregla í Þýskalandi handtekið manninn en upphaf málsins má rekja til þess er fjölskylda konunnar tilkynnt um hvarf hennar 10. október. Hafði maðurinn gefið þá skýringu að misklíð hefði orðið með þeim á ferð um Svíþjóð og konan yfirgefið hann þar.

Við yfirheyrslur viðurkenndi hann að hafa orðið konunni að bana og var ákærður fyrir manndráp, vopnalagabrot og fjársvik en rannsókn lögreglu leiddi í ljós að hann hefði millifært peninga af reikningi konunnar yfir á sinn eigin.

Angelika Grefer, forstöðumaður Justizvollzugsanstalt-fangelsisins í Duisburg, staðfestir við norska dagblaðið VG að dánarorsök grunaða sé óþekkt enn sem komið er, en starfsfólk fangelsisins geri sér hugmyndir um hvað gerst hafi. Hún kýs hins vegar að tjá sig ekki um það.

Réttarhöld yfir manninum áttu að hefja göngu sína 10. apríl.

NRK

VG

Westfälischen Nachrichten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert