Níu létust í árekstri: Tveggja ára drengur lifði af

Tankbifreiðin illa farin utan vegar eftir slysið á föstudaginn.
Tankbifreiðin illa farin utan vegar eftir slysið á föstudaginn. Skjáskot/Sjónvarpsfréttir CBS

Níu eru látnir eftir árekstur tankbifreiðar og sendiferðabifreiðar á Hraðbraut 95 í bænum Dewhurst í Miðvestur-Wisconsin í Bandaríkjunum á föstudagsmorgun.

Eftir því sem skrifstofa lögreglustjóra staðarins greinir frá var tankbílnum ekið eftir brautinni í austurátt þegar hinni bifreiðinni var ekið af hliðarvegi og inn á gatnamótin. Rákust bifreiðarnar þá saman með fyrrgreindum afleiðingum.

Ökumaður tankbifreiðarinnar var úrskurðaður látinn á vettvangi en aðrir sem létust voru í sendiferðabifreiðinni. Voru alls níu manns í henni og var tveggja ára gamall drengur í þeim hópi sá eini sem lifði áreksturinn af. Var hann færður á St. Joseph-sjúkrahúsið til aðhlynningar.

Þekktur að greiðvikni

Hópurinn í sendibifreiðinni tengdist að einhverju leyti fjölskylduböndum en þar voru hjón á ferð, tvö börn þeirra og systir eiginmannsins. Fyrrverandi eiginkona ökumanns bifreiðarinnar ræddi við CBS-sjónvarpsstöðina og kvað málið hið sorglegasta. Ökumaðurinn hefði verið þekktur að greiðvikni og oft boðið fólki úr Amish-söfnuðinum á svæðinu akstur.

„Hjartað í manni sekkur. Maður veit ekki hvernig maður á að bregðast við, ég veit ekki hvernig ég á að taka þessu og ég veit ekki hvort einhver leið þjáningar fyrir dauðann,“ segir eiginkonan fyrrverandi.

Hraðbraut 95 var lokuð klukkustundum saman á föstudaginn í kjölfar slyssins og báðu lögregluyfirvöld ökumenn að velja aðrar leiðir.

„Okkur Kathy er þyngt í dag vegna banaslyssins í Clark-sýslu,“ skrifar Tony Evers ríkisstjóri á samfélagsmiðilinn X, „hjörtu okkar og bænir eru hjá fjölskyldum og ástvinum allra hlutaðeigandi og eins viðbragðsaðilum sem veittu stuðning á slysstað.“

CBS

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert