Segir ketamínnotkun sína fjárfestum í hag

Elon Musk kveðst hvorki drekka né reykja gras en segir …
Elon Musk kveðst hvorki drekka né reykja gras en segir ketamín koma sér úr neikvæðu hugarástandi. AFP/Leon Neal

Auðkýfingurinn Elon Musk gaf í skyn að notkun hans á Ketamíni væri fjárfestum Tesla í hag frekar en áhyggjuefni í viðtali sem hann birti á samfélagsmiðlinum X.

Ketamín er svæfingarlyf sem einnig getur kallað fram ofskynjanir og er því einnig notað sem vímuefni. Hefur það einnig notið nokkurra vinsælda á síðustu árum að nota efnið í litlum skömmtum til að vinna bug á geðrænum kvillum og áfengissýki. 

Fyrr á árinu komust sögur á kreik um að vímuefnanotkun Musk væri farin að hafa veruleg áhrif á starfsgetu hans, en átta starfsmenn eru sagðir hafa sent opið bréf til nokkurra framkvæmdastjóra SpaceX-fyrirtækisins og lýst yfir áhyggjum vegna hegðunar hans. 

„Ketamín er gagnlegt til að koma manni út úr neikvæðu hugarástandi,“ sagði Musk við fyrrverandi fréttamann CNN, Don Lemon, í viðtali.

„Nánast alltaf“ edrú þegar hann birtir færslur

Sagðist Musk ekki telja að hann væri með langvarandi þunglyndi heldur tæki lyfið þegar hann væri í „neikvæðu efnafræðilegu ástandi“ en tók sérstaklega fram að hann misnotaði ekki efnið heldur tæki lítinn skammt um það bil einu sinni í viku. 

Kvaðst hann hvorki neyta áfengis né reykja gras og vera „nánast alltaf“ edrú þegar hann birtir hugleiðingar sínar seint á kvöldi á samfélagsmiðli sínum X.

Spurður hvort notkun hans á efninu geti ekki haft áhrif á álit fjárfesta kvaðst Musk ekki hafa áhyggjur. 

„Við vorum með mest selda bílinn í heiminum í fyrra. Þannig frá sjónarmiði fjárfesta, ef ég er að taka eitthvað þá ætti ég að halda áfram að taka það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert