Árásin í 70 metra fjarlægð frá heimili Telmu

Lögreglan í Ósló gengur nú í hús og leitar að …
Lögreglan í Ósló gengur nú í hús og leitar að vitnum. Mynd úr safni. Hakon Mosvold Larsen

Telma Björk Magnúsdóttir, íbúi í Ósló, býr 70 metrum frá vettvangi skotárásar sem varð þar um áttaleytið í kvöld. Kom hún að lokunarpóstum lögreglu þegar hún var á göngu með hundinn sinn skömmu eftir árásina.

Greint hefur verið frá því að karlmaður á fimmtugsaldri hafi verið skotinn við Hersleb-skóla en Telma býr þar rétt hjá, á Hersleb-götu. Talið er að þremur til fjórum skotum hafi verið hleypt af.

Heyrði frá vini sínum sem var á vettvanginum

„Ég frétti af þessu því ég var að fá mér bjór með vinkonu minni. Ég fékk Snapchat-skilaboð frá vini mínum um að það hafi orðið skotárás rétt hjá. Um áttaleytið sendi hann að hann ætlaði að kaupa gos og þá hljóp einhver með pappír til að stoppa blæðingar hjá einhverjum sem var skotinn,“ segir Telma. Versluninni hafi verið lokað í kjölfarið sem og götum í nágrenninu.

„Síðan fór ég í göngutúr með hundinn minn og var í raun búin að gleyma þessu þá. Síðan heilsa ég löggu þarna og kem síðan að götu sem ég ætlaði að labba en hún var lokuð. Maður fékk smá sjokk og vildi spyrja lögregluna hvað hafi gerst.“ Lögreglan hafi ekki viljað segja Telmu frá árásinni en hættan hafi þá verið liðin hjá.

Fleiri hafi verið skotnir

„Ég hef ekki mikið að segja því ég var ekki þarna. Það var búið að loka götunni og ég hef heyrt að einhverjir fjórir hafi verið meiddir. Mann dettur í hug að þetta hafi verið eitthvað með fíkniefni að gera.“ Orðrómar hafi verið á kreiki um að árásin hafi verið skipulögð fyrirfram. 

Lögreglan gengur nú í hús og leitar að vitnum að árásinni en eitt þeirra segir í samtali við norska ríkissjónvarpið að þremur skotum hafi verið hleypt af. Lögregla telur að skotin hafi verið þrjú til fjögur.

„Ég er eiginlega bara heppin að ég hafi verið farin út að hitta kærastann minn þar sem hann er að vinna meðan þetta gerðist. Hundurinn minn heyrði þetta inni í herbergi. Maður veit aldrei hvað hefði getað gerst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert