Páfinn afboðaði sig á síðustu stundu

Páfinn í messu í Péturskirkju fyrr í dag.
Páfinn í messu í Péturskirkju fyrr í dag. AFP/Filippo Monteforte

Frans páfi hætti við að taka þátt í mikilvægri athöfn páskanna í Páfagarði á síðustu stundu í dag. Málið hefur endurvakið áhyggjur fjölmargra af heilsu páfans sem er 87 ára gamall. 

Vatíkanið greindi frá því að páfinn hefði hætt við að taka þátt í athöfninni til þess „varðveita heilsu sína“ fyrir aðra viðburði páskahelgarinnar. 

Hægindastóll páfans hafði verið settur upp á hæðina sem snýr að Colosseum-hringleikahúsinu í Róm þar sem athöfnin var haldin.

Stóllinn var síðan tekinn í burtu eftir að tilkynning barst um að páfinn myndi ekki mæta, stuttu áður en athöfnin hófst. 

Stóllinn var fjarlægður stuttu áður en athöfnin hófst.
Stóllinn var fjarlægður stuttu áður en athöfnin hófst. AFP/Alberto Pizzoli

Athöfnin felst í því að þúsundir manna koma saman til að biðja og minnast þess er Jesús var krossfestur á Golgata-hæð.  

„Til þess að varðveita heilsuna fyrir bænahaldið á morgun og páskamessuna mun Frans páfi fylgjast með athöfninni í kvöld frá Santa Marta aðsetrinu.“

Athöfnin felst í því að þúsundir manna koma saman til …
Athöfnin felst í því að þúsundir manna koma saman til að biðja og minnast þess er Jesús var krossfestur á Golgata-hæð. AFP/Andreas Solaro

Í góðu standi fyrr í dag 

Páfinn missti einnig af athöfninni á síðasta ári þar sem hún átti sér stað stuttu eftir að Frans dvaldi á sjúkrahúsi með berkjubólgu. Þá var fjarvera hans þó tilkynnt með fyrirvara. 

Í febrúar greindi Páfagarður frá því að Frans hefði fengið „væga flensu“ sem leiddi til þess að hann afboðaði sig á nokkra viðburði og bað nokkrum sinnum aðra um að fara með ræður hans. 

Heimildarmaður AFP innan Vatíkansins sagði að „engar sérstakar áhyggjur“ væru af heilsu páfans í dag. 

Heimildarmaðurinn sagði að páfinn hefði verið í góðu standi fyrr í dag og að afboðunin hefði einfaldlega verið varúðarráðstöfun. 

.Stóll páfans áður en hann var fjarlægður.
.Stóll páfans áður en hann var fjarlægður. AFP/Andreas Solaro

Þétt dagskrá 

Dagskrá páfans um páskana er þétt.

Fyrr í dag var hann viðstaddur messu í Péturskirkjunni. Í gær þvoði hann tólf konum sem eru í fangelsi í Róm um fæturna. Á sunnudag mun hann stýra páskamessunni á Péturstorgi.

Frans hefur verið páfi frá árinu 2013 og hefur glímt við ýmsa heilsukvilla. Meðal annars hafa verkir í hnjám og mjöðmum leitt til þess að hann notast reglulega við hjólastól. 

Í júní fór hann í kviðslitaaðgerð, aðeins tveimur vikum eftir að hann var lagður inn á sjúkrahús vegna berkjubólgu og tveimur árum eftir að hann gekkst undir stóra ristilaðgerð. 

Frans hefur áður sagt að það sé möguleiki á að hann láti af embætti ef hann getur ekki sinnt skyldum sínum, líkt og forveri hans Benedikt 16. gerði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert