Eyðilögðu sex herflugvélar Rússa

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu.
Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu. AFP

Forráðamenn úkraínska hersins greindu frá því í dag að þeir hefðu eyðilagt að minnsta kosti sex rússneskar herflugvélar í flugstöð í suðurhluta Rostovs-héraðs með drónaárás.

Úkraínski herinn gerði eina stærstu árás á einni nóttu í margar vikur og skaut yfir 50 drónum á rússneskt landsvæði að sögn varnarmálaráðuneytis Rússlands.

Úkraínumenn náðu að eyðileggja sex herflugvélar og valda talsverðum skemmdum á átta vélum.

Rússar segja að 44 drónum af 53 hafi verið miðað á suðurhluta Rostov-héraðs, sem er rétt handan við landamæri Úkraínu. Á þessu svæði er fjöldi herstöðva Rússa.

Olli óverulegum skemmdum á rafstöð

Vasily Golubev, ríkisstjóri í Rostov, segir að drónaárás á Morozovsk-hverfið, þar sem ein flugherstöðin er staðsett, hafi valdið óverulegum skemmdum á rafstöð og rafmagnsleysi hjá 600 íbúum. Hann greindi einnig frá því að rúður hefðu sprungið í fjölbýlishúsi en minntist ekkert á flugstöðina.

Úkraínumenn hafa aukið loftárásir á rússneskt yfirráðasvæði undanfarna mánuði sem beinst hafa bæði að herstöðvum og orkustöðvum í því skyni að trufla framborð Rússa á eldsneyti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert