Greta Thunberg handtekin tvisvar

Greta Thunberg var handtekin í Haag í dag.
Greta Thunberg var handtekin í Haag í dag. AFP/Ramon van Flymen

Sænski lofts­lagsaðgerðasinn­inn Greta Thun­berg var handtekin tvisvar af hollensku lögreglunni í dag þegar hópur mótmælenda lokaði stofnbraut í Haag til þess að mótmæla jarðefnaeldsneytisstyrkjum. 

Lögreglan greindi frá því að rúmlega 400 manns hefðu verið handteknir, þar á meðal voru tólf sem höfðu hvatt fólk til þess að loka götunni.

Thunberg, sem er 21 árs gömul, hefur verið látin laus úr haldi.

Thunberg var handtekin tvisvar.
Thunberg var handtekin tvisvar. AFP/Ramon van Flymen

„Ofbeldi yrði beitt“

Mótmælendurnir gengu frá miðborg Haag að A12 hraðbrautinni sem tengir aðsetur hollensku ríkisstjórnarinnar við aðrar stórborgir á borð við Amsterdam, Rotterdam og Utrecht. 

Kröfugangan var skipulögð af hópnum Ext­incti­on Re­belli­on (XR) sem hefur áður lokað hraðbrautinni í margar klukkustundir. Hefur lögregla áður gripið til þess ráðs að sprauta vatni á mótmælendur og fjarlægja þá. 

Í dag kom lögregla hins vegar í veg fyrir að mótmælendur kæmust að stofnbrautinni og vöruðu við því að „ofbeldi yrði beitt“ ef þeir færu á götuna. 

Koma í veg fyrir neyðarástand

Thunberg var á meðal þeirra sem kölluðu slagorð svo sem „hættið að styrkja jarðefnaeldsneytisnotkun“ og „plánetan okkar er að deyja“.

Thunberg sagði við AFP-fréttaveituna að það væri mikilvægt að mótmæla í dag vegna ástands plánetunnar. 

„Við þurfum að gera allt til þess að koma í veg fyrir neyðarástand og bjarga mannslífum.“

Thunberg á meðal mótmælenda í dag.
Thunberg á meðal mótmælenda í dag. AFP/Ramon van Flymen

Settust niður

Thunberg, ásamt öðrum aðgerðarsinnum, komst að A12 hraðbrautinni og settist niður. 

Spurð hvort hún hefði áhyggjur af handtöku svaraði Thunberg: „Afhverju ætti ég að vera það?“

Stuttu síðar var hún handtekin, ásamt öðrum, og dregin í burtu af lögreglu. Þeim var síðar sleppt á öðrum stað. Fljótlega voru þau þá aftur komin á sama stað og voru þá aftur handtekin. Thunberg var síðan látin laus. 

Talsmaður saksóknara sagði AFP-fréttaveitunni að ekki væri búið að ákæra mótmælendurna. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert