Tesla samdi við fjölskyldu látins ökumanns

Elon Musk kynnir Model X árið 2015.
Elon Musk kynnir Model X árið 2015. AFP/Susana Bates

Tesla hefur náð samkomulagi utan dómstóla við fjölskyldu verkfræðings sem lést eftir að bíll hans, sjálfakandi Tesla af tegundinni Model X, lenti í árekstri í bandaríska ríkinu Kaliforníu fyrir sex árum síðan.

Málið átti að koma fyrir rétt í næstu viku.

Í dómskjölum sem voru birt í gær kom fram að Tesla og fjölskylda Wei Lun Huang hefðu náð samkomulagi og að bílaframleiðandinn hefði beðið um að ekki yrði greint frá upphæðinni sem fjölskyldan fær í bætur.

Í málinu sem var upphaflega höfðað kom fram að Huang hefði talið að tæknin sem Model X hefur yfir að ráða myndi koma í veg fyrir hættuna á að ökumenn yrðu fyrir meiðslum.

Ekki með hendur á stýri

Hann var á ferð eftir þjóðvegi í borginni Mountain View í Kaliforníu í mars árið 2018 og notaðist við sjálfaksturs-tæknina þegar bíllinn lenti á steyptum vegatálma með þeim afleiðingum að hann lést, að því er segir í dómskjölum.

Fjölskylda Huangs sagði að Tesla hefði farið óvarlega í smíði og markaðssetningu á Model X frá árinu 2017.

Bandarísk yfirvöld úrskurðuðu að Huang hefði ekki verið með hendurnar á stýrinu þegar slysið varð, þrátt fyrir viðvaranir hugbúnaðar sem fylgdi bílnum um slíkt.

Tesla segir bíla sína vera örugga, meðal annars þá sem hægt er að láta aka sjálfa. Fyrirtækið hefur þó varað ökumenn við að fylgjast ávallt vel með við aksturinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert