Svíar auðvelda kynleiðréttingar

Sænski forsætisráðherrann Ulf Kristersson hefur átt undir högg að sækja …
Sænski forsætisráðherrann Ulf Kristersson hefur átt undir högg að sækja vegna nýja frumvarpsins og hefur fylgispekt við hann dalað í kjölfar þess er hann viðurkenndi að hafa látið undan þrýstingi flokkssystkina sinna. AFP/John Thys

Sænska þingið samþykkti í dag umdeilt lagafrumvarp sem lækkar löglegan lágmarksaldur til að gangast undir kynleiðréttingaraðgerð úr 18 árum í 16 auk þess sem nýja löggjöfin tryggir betra aðgengi að skurðaðgerðum þessu tengdum.

Frumvarpið var samþykkt með 234 atkvæðum á móti 94 en efni þess hefur ekki verið óumdeilt og vakið harðar deilur í Svíþjóð sem varð fyrst landa heims til þess að innleiða löglegar kynskiptaaðgerðir, eða kynleiðréttingaraðgerðir eins og þær kallast nú, árið 1972.

Svo rammt hefur raunar kveðið að deilum þessum að þær hafa dregið úr stuðningi þjóðarinnar við Ulf Kristersson forsætisráðherra í kjölfar þeirrar játningar hans að hann hefði látið undan þrýstingi flokkssystkina sinna í þeim efnum að veita málinu brautargengi.

Allt að sjö ára ferli

„Fæstir Svíar munu nokkurn tímann taka eftir lagabreytingunni en fyrir fjölda hinsegin fólks hafa nýju lögin í för með sér stóra og mikilvæga breytingu,“ sagði Johan Hultberg, þingmaður sænska hægriflokksins Moderaterna, í ræðu á þinginu í dag.

Sem fyrr segir er það ekki eingöngu lækkaður lágmarksaldur til að gangast undir kynleiðréttingaraðgerð sem nýju lögin færa með sér heldur er þeim ætlað að auðvelda hverjum sem það kýs að gangast undir slíka aðgerð.

„Ferlið er mjög langt eins og það er nú og getur tekið allt að sjö ár að skipta um kyn í Svíþjóð,“ segir Peter Sidlund Ponkala, formaður réttindasamtaka hinsegin fólks í Svíþjóð, í samtali við AFP-fréttastofuna.

1.500 prósenta fjölgun

Með nýju lögunum, sem taka gildi 1. júlí 2025, munu umsækjendur um kynleiðréttingaraðgerð, sem ekki hafa náð 18 ára aldri, þó enn þarfnast samþykkis forráðamanna, læknis og sænsku lýðheilsustofnunarinnar. Brottnám eggjastokka eða eistna verður þó enn miðað við 23 ára lágmarksaldur eins og núgildandi lög mæla fyrir um.

Frá árinu 2008 hefur sókn í kynleiðréttingaraðgerðir aukist umtalsvert í Svíþjóð og má þar nefna sem dæmi að 1.500 prósenta fjölgun hefur orðið í hópi 13 til 17 ára stúlkna sem sækjast eftir því að láta leiðrétta kyn sitt miðað við sína sannfæringu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert