Hafa áhyggjur af nýsamþykktum lögum

Margus Tsahkna, utanríkisráðherra Eistlands, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, Baiba …
Margus Tsahkna, utanríkisráðherra Eistlands, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, Baiba Braže, utanríkisráðherra Lettlands, og Gabrielius Landsbergis, utanríkisráðherra Litáens, ásamt Salome Zourabichvili, forseta Georgíu. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra er í Georgíu þar sem hún fundaði með forseta landsins ásamt utanríkisráðherrum Eistlands, Lettlands og Litáens. Á fundinum voru einnig fulltrúar stjórnvalda, stjórnarandstöðu og frjálsra félagasamtaka.

Ferð ráðherranna var farin í framhaldi af sameiginlegri yfirlýsingu Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna (NB8-ríkjanna) sem gefin var út á föstudaginn var. 

Frá þessu er greint á vef Stjórnarráðsins.

Þar segir að tilgangur ferðarinnar sé að sýna stuðning við Georgíu og íbúa landsins á vegferð þeirra í átt að frekari aðild að vestrænu samstarfi, bæði Evrópusamstarfi sem og á vettvangi Atlandshafsbandalagsins.

Landið hlaut stöðu umsóknarríkis um aðild að Evrópusambandinu í desember og hefur lengi unnið að aðild að Atlantshafsbandalaginu.

Vildu bregðast við

„Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin hafa stutt dyggilega við vegferð Georgíu í átt að efnahagslegum og lýðræðislegum umbótum, allar götur síðan þjóðin öðlaðist sjálfstæði á ný,“ er haft eftir utanríkisráðherra á vef Stjórnarráðsins.

„Við óttumst að nýsamþykkt lög um meint gagnsæi erlendra áhrifa muni hafa neikvæð áhrif á stöðu Georgíu í hinum frjálsa heimi og þá er hún í andstöðu við greinilegan meirihlutavilja georgísku þjóðarinnar líkt og viðbrögð almennings bera með sér. Við þessu vildum við bregðast, en valið er að lokum alltaf í höndum Georgíu.“

Frumvarp um meint gagnsæi erlendra áhrifa var samþykkt á georgíska þinginu í gær. Segir í tilkynningu Stjórnarráðsins að lagasetningin veki alvarlegar spurningar um hvert landið stefni.

„Lögin þykja samin undir sterkum rússneskum áhrifum, en sambærileg lög sem voru samþykkt í Rússlandi á sínum tíma höfðu alvarlegar afleiðingar fyrir fjölmiðla og starf frjálsra félagasamtaka þar í landi,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert