Fréttaskýringar um ESB í Morgunblaðinu frá 4.-15. janúar: Kostir og gallar aðildar að ESB

Reuters

Nú er málið rætt af alvöru innan allra stjórnmálaflokka hvort Ísland eigi að sækja um aðild að ESB og láta reyna á samninga sem kunna að nást í þjóðaratkvæðagreiðslu. Til marks um það verða Evrópumálin ofarlega á baugi á flokksþingi Framsóknarflokksins 16.-18. janúar og landsfundi Sjálfstæðisflokksins 29. janúar til 1. febrúar.

Ef til vill hafa Íslendingar ekki verið eins nærri því að sækja um aðild að ESB síðan í upphafi sjöunda áratugarins þegar viðreisnarstjórnin var við völd. „Þá var rætt um hugsanlega aðild af hálfu ríkisstjórnarinnar og sérfræðinga hennar af meiri þunga en nokkru sinni síðan,“ skrifar Björn Bjarnason dómsmálaráðherra á heimasíðu sinni. „Bretar voru þá að velta fyrir sér aðild. Þeim var hafnað af Charles de Gaulle Frakklandsforseta og þar með runnu hugmyndir um aðild Íslands einnig út í sandinn.“

Viðamikil fréttaskýring

Á þessum tímamótum hefur Morgunblaðið ráðist í viðamikla fréttaskýringu á kostum og göllum aðildar að ESB fyrir Íslendinga.

Í dag er fjallað um sögu Evrópusambandsins, hugsjónir og gildi. Tæpum 60 árum eftir að Evrópa steig skref í átt til þess samstarfs sem orðið hefur að ESB stendur samvinnan enn á ný á tímamótum. Tyrkir standa enn utan sambandsins og framundan eru erfiðir tímar þar sem tryggja þarf að ávinningur alþjóðavæðingarinnar á hinum síðari árum þurrkist ekki út í fjármálahruninu. ESB er nú mesta efnahagsveldi heims en allt útlit er fyrir að hlutur þess í heimsframleiðslunni muni minnka á öldinni. Þangað til má reikna með auknum hagvexti í nýju aðildarríkjunum í austri sem áður bjuggu við áætlunarbúskap.

Á morgun, 5. janúar, verður fjallað um EES-samninginn. Ísland hefur verið aðili að EES-samningnum frá árinu 1994 og hefur á þeim tíma tekið upp nánast alla löggjöf ESB sem varðar innri markaðinn. Hvað stendur út af og hvað myndi bætast við ef Ísland gengi alla leið?

Þá tekur við umfjöllun um landbúnað og byggðastefnu á þriðjudag. Við inngöngu í ESB myndu tollar á milli Íslands og ESB falla niður, þar með talið tollar á landbúnaðarafurðir. Jafnframt yrðu Íslendingar aðilar að sameiginlegri landbúnaðarstefnu sambandsins. Bændur eru andvígir inngöngu í ESB og segja að aðild myndi leiða til lægri styrkja, engrar tollverndar og lægra afurðaverðs. Svína- og alifuglarækt yrði verst úti. En hvaða áhrif hefði aðild að ESB á matvælaverð – og pyngju neytenda? Og gætu byggðastyrkir rétt að einhverju leyti hlut landsbyggðarinnar?

Fjallað verður um gjaldmiðilsmál 7. janúar, en gengi krónunnar hrapaði í fyrra og margir kalla á nýjan valkost, hvort sem það felst í inngöngu í ESB og upptöku evru, einhliða upptöku annars gjaldmiðils, einkum evru eða dollars, eða því að festa gengi krónunnar við annan gjaldmiðil með myntráði.

Þá verður fjallað um stöðuna í Finnlandi 8. janúar. Fjórtán árum eftir að hafa samþykkt inngöngu í ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu eru Finnar gagnrýnir á samstarfið við sambandið. Ef marka má viðmælendur Morgunblaðsins vill hins vegar mikill minnihluti úrsögn úr sambandinu. Evran er talin styrkur andspænis fjármálahruninu, þótt umdeilt sé hvort og þá hversu mikið nýi gjaldmiðillinn hafi örvað hagvöxt í landinu.

Leitað verður svara við því 9. janúar hvaða hlutverki ráðherraráðið, framkvæmdastjórnin og Evrópuþingið gegna? Hverju ræður ESB og hverju ráða aðildarríkin? Hvernig eru ákvarðanir teknar innan sambandsins? Evrópusambandið er flókið fyrirbæri og ekki hlaupið að því að útskýra það með einföldum hætti. En það má reyna...

Hvað er í húfi?

Fjallað verður um orku og auðlindir laugardaginn 10. janúar. Hvað verður um íslensku orkuna ef Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu? Mun sambandið gera tilkall til olíunnar finnist hún þá á annað borð norðaustur af landinu eins og norskir olíusérfræðingar hafa haldið fram að undanförnu? Mun náttúruverndarstefnan taka breytingum vegna krafna frá Brussel?

Lengi hefur mest andstaða við inngöngu í ESB verið út af því að Íslendingar vilji halda yfirráðum yfir 200 mílna landhelgi og fiskimiðunum. Sameiginleg sjávarútvegsstefna ESB hefur sætt gagnrýni, en hversu mikil áhrif myndi það hafa á útgerð frá verstöðinni Íslandi ef við gengjum í ESB? Þeirri spurningu verður velt upp sunnudaginn 11. janúar.

Umhverfismál verða til umfjöllunar 12. janúar. Hafa Íslendingar ekki þegar notið þess besta úr umhverfisstefnu Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn? Er nokkur þörf á að stíga skrefið til fulls með aðild?

Utanríkis- og öryggismál verða viðfang fréttaskýringar 13. janúar. Eftir því sem slagkraftur Evrópusambandsins vex á alþjóðavettvangi er eðlilegt að spurningar um stefnu þess í utanríkismálum vakni. Hvaða hlutverk ætlar það sér á vettvangi alþjóðamálanna næstu áratugina?

Evrópusamstarfið snýst ekki einvörðungu um efnahagsmál. Áhrifa þess gætir víða í alþjóðasamstarfi. Mannréttindi eru málaflokkur sem kemur þar einna fyrst upp í hugann og verða þau til umfjöllunar 14. janúar. En styðja Íslendingar viðleitni sambandsins í mannréttindamálum? Telja Íslendingar sig eiga samleið með sambandinu í jafn veigamiklum málaflokki?

Loks verður fjallað um umsóknarferlið að ESB í síðustu fréttaskýringu greinaflokksins 15. janúar – hvernig slíkt ferli gengur fyrir sig og hvaða reynslu aðrar þjóðir hafa af því.

Með þessum flokki fréttaskýringa leitast Morgunblaðið við að draga fram kosti og galla aðildar, þannig að Íslendingar geti betur gert sér grein fyrir því hvað er í húfi – og hvort hagsmunum Íslands er betur borgið innan eða utan ESB.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina