Fá atkvæði í hlut Íslands

Björg Thorarensen.
Björg Thorarensen.

Björg Thorarensen er prófessor við lagadeild Háskóla Íslands. Hennar sérsvið er stjórnskipunarréttur.

Björg segir að það blasi við að Ísland fengi smæðar sinnar vegna ekki mörg atkvæði í þeim stofnunum Evrópusambandsins sem hafa lagasetningarvald, ráðherraráðinu og Evrópuþinginu. Í ráðherraráðinu fengi Ísland um 1% atkvæðavægi og heldur minna í þinginu. „Þannig að Ísland hefði nú ekki mikið vægi þegar litið er til þeirra formreglna sem gilda.“

Á hinn bóginn yrði að skoða málið út frá pólitík. Ríki mynduðu bandalög og innan sambandsins væri ávallt reynt að ná samkomulagi. Það væri auðvitað hægt að búa til bandalög en það væri ekki víst að hagsmunir Íslands og annarra ríkja færu saman í öllum tilvikum. „Ef Ísland þarf að verja sína sérhagsmuni sem rekast á hagsmuni stærri ríkja, þá hefur Ísland ekki möguleika á að hafa mikil áhrif.“

Í sambandinu er sjaldnast gripið til atkvæðagreiðslu og þar er viðleitni til að ná samkomulagi. „Ef aðeins er litið á reglurnar um hvert yrði vægi Íslands í atkvæðagreiðslu ráðherraráðsins eða þingmannafjölda á Evrópuþinginu er það afar lítið. En samkomulag næst um flesta hluti í ráðherraráðinu án þess að á þetta reyni. Náist hins vegar ekki samkomulag hefur Ísland augljóslega lítið að segja um niðurstöðu í slíkum ágreiningi.“ Hún hefur áhyggjur af því hvað gerist ef upp koma hagsmunaárekstrar, hagsmunir fari ekki alltaf saman í sambandi svona margra og ólíkra ríkja þar sem stefnt er að einsleitni í lagasetningu. „En auðvitað treystir maður því að í svona stóru samfélagi sé verið að vinna að hagsmunum allra íbúanna í senn.“


mbl.is

Bloggað um fréttina