Öryggiskennd með aðild að ESB

Ísland sem smæsta ríki ESB gæti augljóslega ekki hafa mikil áhrif á stefnu Evrópusambandsins. Það er þó ekki þar með sagt að Ísland hefði engin áhrif. Reynsla smáríkja er sú að þau geta haft umtalsverð áhrif í afmörkuðum málaflokkum, vandi þau vel til verka.

Þetta hafa rannsóknir leitt í ljós og sömuleiðis er þetta reynsla þeirra sendifulltrúa nokkurra smærri ríkja sem Morgunblaðið ræddi við í desember sl., þ. á m. fastafulltrúa Letta gagnvart ESB, Normunds Popens. Popens sagði að þó Lettlandi takist að sjálfsögðu ekki að fá öllu sínu framgengt og að sjálfsögðu hefðu stærri ríkin meiri völd en þau smærri, hefði Lettlandi tekist ágætlega að hafa áhrif á þá málaflokka sem skipta landið miklu máli, s.s. loftslags- og orkumál.

Þannig að ESB hlustar á ykkur. Þeir segja ekki bara, æji þeir eru svo litlir og hafa svo lítið vægi í ráðherraráðinu og svo framvegis?

„Nei, ég held að það sé bæði almenn stefna og hefð innan sambandsins að reyna að gera alla ánægða. Það er hvorki vilji framkvæmdastjórnarinnar, ráðsins né nokkurra annarra að taka ákvörðun sem veldur einhverju ríkjanna miklum vandræðum. Það mun bara koma í bakið á mönnum seinna. Það er mikið reynt að ná samkomulagi sem allir geta sætt sig við. En raunveruleikinn er raunveruleikinn. Stóru aðildarríkin hafa auðvitað gríðarlegt vægi."

Lettland er að sigla inn i kreppu og eru að reyna að vinna sig út úr henni. Það var engin tilviljun að þegar blaðamaður Morgunblaðsins var á skrifstofu Popens í Brussel mætti hann lettneska seðalbankastjóranum í biðstofunni því skömmu síðar var greint frá láni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Evrópska seðlabankans til Lettlands.

Hvaða máli skiptir aðild fyrir Lettland með tilliti til kreppunnar?

„Ég held að ef við værum utan sambandsins væri mun meiri hætta á að kreppan yrði dýpri. Þó við sjáum fram á kreppu á næsta ári þá held ég að efnahagurinn taki við sér. Það tengist því að við erum hluti af ESB og innri markaðnum. Ég held reyndar að ástandið væri betra ef við værum hluti af evrusvæðinu, þá væru áhrif kreppunar mun mýkri. Þó latinn (gjaldmiðill Lettlands) sé tengdur við evru er alltaf eitthvað um spákaupmennsku sem getur valdið óstöðugleika. Og þú veist hversu stöðugleiki er mikilvægur á fjármálamörkuðum."

Ef við lítum fram hjá áhrifum evrunnar og tengingar latsins við hana. Hefur aðild að ESB þá skipt máli í baráttunni við kreppuna?

„Það hefur verið gripið til ákveðinna aðgerða. Endurreisnaráætlunin [sem ESB samþykkti í desember] felur meðal annars í sér að Evrópski fjárfestingabankinn veitir um 30 milljörðum evra til að örva efnahagslíf í litlum og meðalstórum aðildaríkjum. Einnig verður flýtt fyrir útborgun úr félags- og uppbyggingarjóðum sambandsins. Sumt skiptir okkur ekki máli en annað mun hafa bein áhrif á næsta ári. Og það er auðvitað ekkert leyndarmál að Lettland er að leita eftir svipuðum samningi við Alþjóðabankann og Ísland fékk [og hefur nú fengið]. Það er heldur ekkert leyndarmál að ESB virðist ætla að fara betur út úr kreppunni en önnur svæði. Ég held að hluti af skýringunni sé sú öryggiskennd sem felst í því að vera í sambandinu. Ef lítið land með eigin gjaldmiðil lendir í vandræðum hefði spákaupmennska og orðrómur miklu meiri áhrif."

Hvað hefði gerst ef Lettland hefði ekki verið í ESB?

„Ég vil helst ekki hugsa um það. En mitt persónulega álit er að við værum í mun verri málum en nú." Það nægi að líta á lönd sem voru í svipaðri stöðu og Lettland eftir fall Sovétríkjanna en gengu ekki inn í ESB. Þau væru nú í mun verri stöðu.

Ef Ísland myndi sækja um aðild, gæti Lettland á einhvern hátt beitt áhrifum sínum til að Ísland fengi sem hagstæðastan samning?

„Það fer nú eftir því hvað þið viljið," sagði Popens og brosti.

Ég á nú aðallega við fiskveiðar.

„Við berum sérstakar taugar til Íslands enda var það fyrst til að viðurkenna sjálfstæði okkar árið 1991. Öll skólabörn í Lettlandi læra þetta. Ef þið næðuð góðum samningi um fiskveiðar myndum við ekki gera athugasemdir, þvert á móti, þið eigið góða vini í Lettlandi. Og við værum mjög ánægðir ef Ísland sækti um aðild og ynni með okkur. Það er líka betra að vera inni í sambandinu þegar ákvarðanirnar eru teknar, jafnvel þó maður sé ekki alltaf ánægður með útkomuna og finnist stóru ríkin ráða mestu. En lítið ríki hefur enn minni áhrif ef það er fyrir utan sambandið. Ég er viss um að það sé hægt að ná einhverri málamiðlun um fiskveiðar."

En hafið þið einhverjar leiðir til að hafa áhrif á viðræðurnar og niðurstöðu samningsins?

„Með því að vera jákvæðir gagnvart aðildinni er hægt að hafa áhrif. Og ég held að það sé mikilvægt að eiga vini innan sambandsins sem eru alltaf jákvæðir gagnvart ykkur og láti þá sem eru andvígir líta illa út. Króatía er gott dæmi um þetta, okkur sem höfum verið jákvæðir gagnvart Króatíu og smám saman hefur tekist að vinna aðild Króatíu fylgi. Vinir innan sambandins eru enn mikilvægari nú þegar margir eru orðnir þreyttir á sífelldri stækkun sambandsins."

Latinn er tengdur við evruna, hafið þið hugleitt að taka gjaldmiðilinn upp einhliða, líkt og oft er rætt um á Íslandi?

„Nei, ekki í raun og veru. Það er ekki nákvæmlega það sama og að taka þátt í evrusvæðinu sem er okkar markmið. Ég held raunar að með kreppunni takist okkur að uppfylla skilyrðin því verðbólgan er á niðurleið. Ég er reyndar ekki sérfræðingur í fjármálum. Þetta hefur verið gert í ákveðnum löndum en ég er ekki viss um að þau séu bestu fordæmin. En við höfum ekki hugleitt þennan kost því við ætlum að taka þátt í evrusvæðinu af alvöru."

Popens lagði ríka áherslu á að vanda yrði til verka við gerð aðildarsamnings. Þótt ákvæði í samningnum hefðu óvæntar afleiðingar, t.d. vegna þróunar sem ekki var reiknað með, væri afar erfitt að hnika því til sem stæði í samningnum. Þetta hefðu Lettar m.a. reynt í landbúnaðarmálum. Á hinn bóginn, fengjust einhverjar tímabundnar undanþágur í samningnum, þá væri auðveldara að semja um að framlengja þær eða semja um það málefni að öðru leyti. „Aðildarsamningurinn myndar grunninn að framtíðinni, ekki síst í landbúnaði, umhverfismálum og líka í fiskveiðum," sagði hann.

Normund Popens, fastafulltrúi Lettlands gagnvart Evrópusambandinu.
Normund Popens, fastafulltrúi Lettlands gagnvart Evrópusambandinu. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina