Mótmæla algjöru veiðibanni

Lundar eiga erfitt uppdráttar víða um land, ekki síst í …
Lundar eiga erfitt uppdráttar víða um land, ekki síst í Vestmannaeyjum. Rax / Ragnar Axelsson

SKOTVÍS, Skotveiðifélag Íslands, telur að algjört veiðibann eða miklar takmarkanir á veiðum á svartfugli sé marklaus aðgerð sem muni spilla fyrir trú veiðimanna á fyrirkomulagi veiðistjórnunar á Íslandi. Á hinn bóginn megi draga úr og jafnvel stöðva tímabundið veiðar á teistu og lunda.

Í morgun var kynnt tillaga starfshóps umhverfisráðherra um að fimm tegundir sjófugla af svartfuglaætt yrðu friðaðar fyrir öllum veiðum og nýtingu næstu fimm árin, þ.e. álku, langvíu, stuttnefju, lunda og teistu.

Í tilkynningu frá SKOTVÍS er bent á að í skýrslu starfshópsins komi fram að ástæðan fyrir fækkun í stofnum svartfugla við Ísland sé hnattrænar loftslagsbreytingar og breytingar á fæðuframboði í hafinu í kjölfarið. Það sé bara eitt sem ráðherra geti haft bein áhrif á; veiðar og nytjar. „Því hafði starfshópurinn ekki um margar tillögur að velja til að draga úr afföllum, í raun bara eina; að takmarka eða leggja til bann við veiðum og nýtingu á umræddum tegundum,“ segir í tilkynningunni.

Mun sennilega fækka, hvað sem veiðum líður

„Að mati SKOTVÍS hafa skotveiðar lítil áhrif á viðkomu bjargfugla á Íslandi en árlega eru skotnir fáir tugir þúsunda svartfugla úr stofnum sem telja milljónir einstaklinga! Ef hlýnun sjávar við Ísland er staðreynd, með tilheyrandi breytingum á fæðuframboði, þá er sennilegt að bjargfuglum muni fækka, hvað sem veiðum og hefðbundnum nytjum líður. Samt sem áður er það álit SKOTVÍS að draga megi úr veiðum og jafnvel stöðva veiðar tímabundið á teistu og lunda og skilaði félagið séráliti með greinagóðum tillögum. Það er mat SKOTVÍS að verði farið eftir þeim tillögum megi draga úr veiðum og komast betur að áhrifum veiða á svartfuglastofnana. Það sé fyrsta skrefið sem þarf að taka. Algert veiðibann eða miklar takmarkanir á þeim veiðum sem nú tíðkast er marklaus aðgerð og mun spilla fyrir trú veiðimanna á fyrirkomulagi veiðistjórnunar á Íslandi, segir í tilkynningu SKOTVÍS sem nálgast má í heild sinni hér.

mbl.is

Innlent — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær

Föstudaginn 24. maí