Álftin Svandís snýr heim á Bakkatjörn í tíunda sinn

Á myndinni má sjá Svandísi og maka hennar á sínu …
Á myndinni má sjá Svandísi og maka hennar á sínu venjulega hreiðurstæði. mbl.is

Álftin Svandís Sigurgeirsdóttir sneri fyrir nokkru heim á Bakkatjörn, tíunda árið í röð og hafa Seltirningar tekið eftir heimkomu hennar, að því er segir í tilkynningu frá Seltjarnarnesbæ. Stuttu eftir að Svandís sneri aftur, mætti maki hennar til jafn margra ára á Bakkatjörn.

Í tilkynningunni segir að Svandís hafi sest að í hólmanum í Bakkatjörn stuttu fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 1994 og verið tekið fagnandi, að minnsta kosti af meirihluta bæjarstjórnar Seltjarnarness.

„Svandís varð landsfræg í kosningunum 1994 en sagan segir að hún hafi tryggt stöðu meirihlutans í kosningunum það vor. Forsagan er sú að Sigurgeir Sigurðsson þáverandi bæjarstjóri á Seltjarnarnesi lét búa til hólma einn í Bakkatjörn. Sigurgeir, sem lét af störfum eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar, var eins og allir vita áhugasamur og duglegur í starfi sínu, sem hann hafði gegnt farsællega um langt skeið,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir jafnframt að samstarfsfólkinu, og þá ekki síst fulltrúum minnihlutans í bæjarstjórn, hafi stöku sinnum þótt að hann mætti ráðfæra sig meira við aðra og þannig hafi því einmitt verið háttað þegar hann lét gera hólmann í miðri Bakkatjörn.

„Sú ráðagerð virtist fara fram hjá mörgum því ýmsir ráku upp stór augu þegar hólminn reis úr vatni einn sólbjartan morgun.“

„Fjölmargir „sérfræðingar“ voru þess fullvissir að þessi aðgerð myndi hafa verulega slæm áhrif á fuglalíf í Bakkatjörn og jafnvel ganga að því dauðu. Sigurgeir var ósammála og hafði fyrir því traustar heimildir. Um skeið virtist sem hólminn myndi kosta sjálfstæðismenn á Seltjarnarnesi meirihlutann enda um grafalvarlegt mál að ræða. En einmitt þegar hæst lét kom álft ein, óvenju glæsileg, fljúgandi úr austurátt og nam land í hólmanum ásamt maka sínum. Segja má að gagnrýnisraddir hafi hljóðnað þegar sundfitin snertu grasið í hinum nýgerða hólma. Álftin var samstundis nefnd Svandís Sigurgeirsdóttir og hefur ásamt maka og nokkrum tugum afkvæma skráð lögheimili á Seltjarnarnesi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert