Kastljós stendur við öll atriði umfjöllunar sinnar um Baugsmálið

Hús Ríkisútvarpsins og Sjónvarpsins við Efstaleiti
Hús Ríkisútvarpsins og Sjónvarpsins við Efstaleiti Árni Sæberg

Þórhallur Gunnarsson, ritstjóri Kastljóss Sjónvarpsins, sendi í dag frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að Kastljós standi við öll atriði umfjöllunar sinnar um Baugsmálið í gærkvöldi. Þá segir m.a. að rangt sé að þátturinn hafi byggst á gögnum sem Jón Gerald Sullenberger hafi tínt til enda hafi Kastljós undir höndum opinber gögn sm starfsmenn þess hafi unnið sjálfstætt upp úr.

Einnig segir að umfjöllun Kastljóss hafi ekki snúist um þá ákæruliði sem voru til meðferðar fyrir Héraðsdómi í mars og að því hafi ekki þótt ástæða til að geta niðurstöðu Héraðsdómur Reykjavíkur frá 15. mars í þættinum.

Yfirlýsing Þórhalls fer í heild sinni hér á eftir:

Hreinn Loftsson stjórnarformaður Baugs sendi í gærkvöld frá sér yfirlýsingu vegna umfjöllunar Kastljóss um einn ákærulið í Baugsmálinu svonefnda. Hér á eftir fara athugasemdir Hreins við umfjöllunina og svör Kastljóss við þeim. Einnig koma fram athugasemdir við fullyrðingar Jóns Ásgeirs Jóhannessonar sem lúta að tveimur umsjónarmönnum þáttarins.

Hreinn segir:  Í þættinum var með mjög einhliða hætti greint frá samskiptumTryggva Jónssonar og Jón Geralds Sullenberger og byggðist þátturinn á frásögn þess síðarnefnda.
Svar Kastljóss: Þarna er rétt að ítreka að Tryggva Jónssyni, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og lögmönnum þeirra beggja var boðið að tjá sig um þau mál semvoru til umfjöllunar í þættinum. Þeir þáðu hinsvegar ekki það boð.  Þess í stað byggðum við alfarið á þeim gögnum sem koma fram í lögregluskýrslum en þar koma sjónarmið þeirra fram.

Hreinn segir: Hvergi var þess getið í þættinum að Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í dómi sínum frá 15. mars að Jón Gerald væri ótrúverðugt vitni og sönnunargildi gagna sem frá honum stöfuðu væri takmarkað.
Svar Kastljóss: Umfjöllun Kastljóss í gærkvöld snerist ekki um þá ákæruliðisem voru til meðferðar fyrir Héraðsdómi í mars.  Fjallað var í þættinum umeinn þeirra ákæruliða sem þingfestir voru fyrir Héraðsdómi í apríl.  JónGerald er þar einn hinna ákærðu og enginn efnislegur dómur hefur fallið í þeim ákærulið. Það þýðir að ekkert liggur fyrir um trúverðugleika Jóns Geralds í þessum ákærulið né heldur um sönnunargildi gagna.

Hreinn segir:  Af umfjölluninni er augljóst að Jón Gerald Sullenberger hefur tínt til þau gögn sem hann telur sínum málstað til framdráttar en öðrum gögnum og skýringum ekki haldið til haga af sjónvarpsmönnum.
Svar Kastljóss: Þessi fullyrðing Hreins er alröng.  Kastljós hefur undir höndum allar yfirheyrslur yfir sakborningum og gat því unnið sjálfstætt úr þeim gögnum.

Hreinn segir:  Varðandi umfjöllun um 589.000 dollara kreditreikning. Minna má á að það var þessi kreditreikningur sem var aðalgagnið frá Jóni Geraldi þegar hann kærði Jón Ásgeir og Tryggva fyrir fjárdrátt í upphafi málsins. Síðar kom í ljós að þessu var öfugt farið, reikningurinn sýndi inneign Baugs hjá Nordica, þveröfugt við það sem Jón Gerald hafði sagt.
Svar Kastljóss:  Umfjöllun Kastljóss snýr ekki að því hvað Jón Gerald taldi í upphafi þessa máls.   Umfjöllun þáttarins snýst um hvaða ákærum sakborningar sæta en ekki hvert mögulegt sakarefni var á þeim tíma sem rannsóknin hófst.

Hreinn segir: Varðandi upplestur úr lögregluskýrslu yfir forsvarsmönnum SMS í Færeyjum var þess í engu getið að Niels Mortensen var látin undirrita lögregluskýrslu á íslensku án þess að kunna það mál.
Svar Kastljóss: Kastljós hefur undir höndum báðar yfirheyrsluskýrslurnar yfir Niels Mortensen.  Hann var tvisvar kallaður til skýrslutöku í Færeyjum, í fyrra skiptið fór yfirheyrsla fram á dönsku, en skýrslan var skrifuð á íslensku. Mortensen las hana yfir, með aðstoð færeysks lögregluþjóns og íslensku lögreglumannanna.  Hann segist sáttur við það að skýrslan verði bókuð á íslensku og  þýdd á færeysku við yfirlestur. Í lok yfirheyrslu er skýrslan þýdd fyrir Mortensen á færeysku og hann samþykkir hana.
Síðari yfirheyrslan fór fram daginn eftir, aftur var töluð danska og skýrslan að þessu sinni gerð á dönsku. Niels Mortensen er þá sérstaklega spurður hvort hann hafi haft fullan skilning á öllum íslenska texta skýrslunnar frá deginum áður. Hann svarar því til að ,,hann hafi skilið allt innihald skýrslunnar þegar hún var þýdd munnlega."

Hreinn segir: Þá koma það ekki fram að hann neitaði við síðari yfirheyrslu að staðfesta þann framburð sinn að Tryggvi Jónsson hefði á fundi í Kaupmannahöfn lagt að sér að greina frá tilurð reikningsins með ákveðnum hætti.
Svar Kastljóss:  Hvergi kemur fram í síðari lögregluskýrslunni að vitnið kjósi að draga framburð sinn frá því deginum áður til baka, eða breyta honum. Vitnið gerir engar athugasemdir við það sem haft er eftir honum í fyrri skýrslutökunni og segist hafa skilið allt innihald þeirrar skýrslu. Í lok skýrslutöku les hann yfir framburð sinn, en skrifar ekki undir skýrsluna.

Þessu er við að bæta að Jón Ásgeir Jóhannesson forstjóri Baugs fullyrðir í bréfi  til útvarpsstjóra að undirritaður og Jóhanna Vilhjálmsdóttir séu í vinfengi við Jón Gerald Sullenberger.  Þetta er rangt!  Einnig segir hann að annað okkar muni hafa verið gestur um borð í Thee Viking.  Þetta er einnig rangt!  Hvorugt okkar hefur stigið fæti um borð í þennan bát. Ennfremur er engin ástæða til þess að draga Jóhönnu Vilhjálmsdóttur inn í þetta mál enda kom hún hvergi nærri umfjöllun Kastljóssins um þetta svokallaða Baugsmál.

Í lokin er rétt að árétta að Kastljós stendur við öll atriði umfjöllunar sinnar í þættinum á mánudagskvöld.
Þórhallur Gunnarsson,  ritstjóri Kastljóss

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert