Spurningar til Kastljósmanna

Morgunblaðinu hefur borist eftirfarandi yfirlýsing frá Tryggva Jónssyni:

"Ég hef hingað til ekki elt ólar við það sem fjölmiðlar hafa sagt um Baugsmálið svokallaða. Ég veit og við höfum marglýst yfir að við erum saklausir af þeim ákærum og rógburði sem málið snýst um og því hef ég beðið þess að málið verði útkljáð hjá dómstólum. Ég veit að því lýkur með sýknu okkar, en ekki hvenær því lýkur.

Sigmar Guðmundsson, einn umsjónarmanna Kastljóss, hringdi í mig seinni part föstudagsins 5. maí og óskaði eftir að ég kæmi í Kastljós mánudaginn 8. maí og svaraði þeim ásökunum sem Jón Gerald bæri á mig og hefði lagt fram gögn því til stuðnings. Í þættinum kom fram að ég hefði neitað að tjá mig um málið. Sigmari var samt fullkunnugt að ég var úti á landi og kæmi ekki til baka fyrr en seint á laugardegi og hygðist fara til útlanda á sunnudagsmorgni. Hann bauð ekki upp á frestun og ég bað ekki um það né breytti fyrirætlunum mínum og var það gert í samráði við lögmann minn þar sem við teljum að rekstur málsins í fjölmiðlum þjóni hvorki hagsmunum okkar né annarra.

Ástæða þess að ég tel mig knúinn að fjalla um þau atriði sem fram komu í gær (mánudag) er vegna barna minna og fjölskyldu. Þau eru nú þolendur og Kastljósmenn gerendur. Það er erfitt fyrir aðstandendur að horfa á upp á sína nánustu verða fyrir nánast daglegri fjölmiðlaumfjöllun um ákærurnar og málið í hartnær fjögur ár. Ég hef ákveðið að koma nokkrum athugasemdum á framfæri vegna málsins þar sem mér ofbauð flutningurinn í Kastljósinu.

Kastljósmenn og lesendur ættu að hugleiða eftirfarandi:

1. Fóru Kastljósmenn fram á að fá óheftan aðgang að öllum málsskjölum (tugi þúsunda blaðsíðna sem fylla 85-100 möppur), eða létu þeir sér nægja að skoða þau skjöl sem Jón Gerald lét þá fá? Þessa er spurt sérstaklega í ljósi þess hvaða hug hann ber til meðákærðra, m.a. með ítrekuðum morðhótunum. Spaugilega hliðin á því er auðvitað þau orð sem hann lét nýverið falla í Silfri Egils um að kjarabætur þær, sem Bónus hefur fært þjóðinni, væri hans verk en ekki þeirra feðga, Jóhannesar og Jóns Ásgeirs, innflutningur Baugs með atbeina Nordica mun hafa verið um það bil 1% af vörusölu Baugs á Íslandi.

2. Orðrétt sagði í Kastljósþættinum: "Í fyrstu lögregluyfirheyrslunni yfir Tryggva Jónssyni segist hann ekkert kannast við þennan kreditreikning. Í yfirheyrslu nokkrum mánuðum síðar segist hann hafa haldið að lögregla væri að tala um debetreikning." Þetta leiðir hugann að upphafinu. Jón Gerald fór af stað með sína kæru um að hann hefði útbúið debetreikning, ekki kreditreikning. RLS spurði mig um debetreikning, sem ég auðvitað kannaðist ekki við. Þegar RLS sneri við blaðinu og fór að spyrja mig um kreditreikning (sem var sólarhring eftir innrásina en ekki nokkrum mánuðum síðar) áttaði ég mig strax á málinu og bullinu í Jóni Gerald. Ég vissi hins vegar ekki þá að RLS hafði vitað í hálfan sólarhring að þetta væri kredit- en ekki debetreikningur, án þess þó að þeir sæju ástæðu til að upplýsa mig um það.

3. Var Kastljósmönnum kunnugt um að þegar Niels Mortensen hinn færeyski var yfirheyrður hafði hann ekki túlk og var látinn skrifa undir yfirheyrsluskýrsluna á íslensku? Og að þeir feðgar Niels og Hans Mortensen neituðu að staðfesta dönsku útgáfu skýrslunnar?

4. Vissu Kastljósmenn að hinn meinti falsreikningur frá Færeyjum, sem fjallað var ítarlega um í þættinum, var bakfærður aftur innan ársins og kom því ekki fram í ársuppgjöri?

5. Tóku Kastljósmenn eftir því að Jón Gerald sagðist aldrei hafa átt nein viðskipti við Baug, öll viðskipti hefðu verið við Aðföng, og því væri kreditreikningur, stílaður á Baug, út úr korti? Tóku Kastljósmenn líka eftir því að Baugur, gagnstætt því sem að framan sagði, hefði skuldbundið sig til að eiga tiltekin viðskipti við Nordica til að standa undir fjárfestingu í vöruhúsi að sögn Jóns Geralds? Af hverju ætli Aðföng hafi ekki skuldbundið sig til þess, fyrst engin voru viðskiptin við Baug?

6. Í Silfri Egils nýlega sagði Jón Gerald, og lagði sérstaka áherslu á orð sín, að hann hefði fjárfest í vöruhúsi fyrir Baug fyrir 500 milljónir dollara. Í Kastljósþætti mánudagsins sagðist hann hafa fjárfest fyrir 500 þúsund dollara. Sannleikurinn er að Jón Gerald/Nordica leigðu eitt bil í stóru vöruhúsi en fjárfestu ekki fyrir 500 milljónir dollara. Hvorki Egill né Kastljósstjórnendurnir gerðu nokkrar athugasemdir við frásögn Jóns Geralds, sem var sama staðleysumarki brennd og endranær.

Ég hef hingað til ekki tjáð mig um Baugsmálið í fjölmiðlum, eins og nefnt var í upphafi. Þar sem Kastljósmenn hafa ákveðið að setja upp sinn eigin dómstól sé ég mig knúinn til að leggja orð í belg eingöngu til að benda á að þeir hafa fengið takmarkaðar upplýsingar, sem henta skjólstæðingi þeirra Jóni Gerald. Að undanskildu þessu bréfi mun ég hins vegar halda áfram mínu striki og láta fjölmiðlaumfjöllun afskiptalausa.

Ég vona að Kastljósmenn og fjölskyldur þeirra njóti gæfu og gengis og lendi ekki í þeirri aðstöðu að látið verði reyna á dómstól götunnar gagnvart þeim.

Reykjavík, 9. maí 2006.

Tryggvi Jónsson."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert