Sjónarmið andstæðinga Kárahnjúkavirkjunar lögð í hornstein aflstöðvar

Skjal, sem lýsir sjónarmiðum andstæðinga Kárahnjúkavirkjunar, verður lagt í hornstein aflstöðvar Kárahnjúkavirkjunar auk skjal sem lýsir undirbúningi og ákvarðanatöku um byggingu Kárahnjúkavirkjunarinnar frá sjónarhóli Landsvirkjunar.

Samkvæmt því sem fram kemur í fréttatilkynningu frá Landsvirkjun hefur fyrirtækið orðið við þeirri ósk nokkurra náttúruverndarsamtaka að leggja umrætt skjal í hornsteininn auk þess sem ákveðið hefur verið að leggja þar annað skjal sem lýsir undirbúningi og ákvarðanatöku um byggingu virkjunarinnar frá sjónarhóli Landsvirkjunar.

Í yfirlýsingunni er haft eftir Friðriki Sophussyni, forstjóri Landsvirkjunar, að forseti Íslands hafi tjáð forsvarsmönnum Landsvirkjunar að samtökin hafi haft samband við hann og óskað eftir að hann beitti sér fyrir því að texti frá þeim yrði lagður í hornsteininn. Hann hafi þó ekki haft neinar óskir í frammi við Landsvirkjun um þetta mál. Forsvarsmönnum fyrirtækisins þyki hins vegar eðlilegt að ólík sjónarmið yrðu varðveitt í hornsteininum þar sem Kárahnjúkavirkjun hafi verið umdeild meðal þjóðarinnar. Þá líti hann svo á að með þessu séu „samtökin í raun að viðurkenna að virkjunin sé staðreynd sem ekki verði breytt."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert