Dómari segir að hluti nýrrar ákæru í Baugsmáli sé hugsanlega ekki nægilega glöggur

Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannesonar.
Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannesonar. mbl.is/ÞÖK

Arngrímur Ísberg, héraðsdómari, hefur vakið athygli Sigurðar Tómasar Magnússonar, sérstaks saksóknara í Baugsmálinu, og Gests Jónssonar, verjanda Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs Group, á því að vera kunni að lýsing ákæruefnis í 1. kafla ákæru, sem þingfest var í Héraðsdómi Reykjavíkur nýlega, sé ekki svo glögg sem vera skyldi. Því kunni að vera, að ákæran sé ekki í samræmi við fyrirmæli laga um meðferð opinberra mála.

Héraðsdómur vísaði upphaflegri ákæru í Baugsmálinu frá, m.a. á þeirri forsendu að verknaðarlýsingu væri ábótavant og einnig þótti verulega skorta á skýrleika í framsetningu ákæru að öðru leyti. Hæstiréttur staðfesti þessa niðurstöðu varðandi alla ákæruliðina nema átta. Sérstakur saksóknari lagði fyrr á þessu ári fram nýja ákæru í málinu í stað þeirra ákæruliða, sem vísað var frá.

Verjendur í Baugsmálinu hafa krafist þess að málinu verði vísað frá dómi og var fjallað um kröfuna í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Var ákveðið að málflutningur um frávísunarkröfuna fari fram 15. júní.

Í bókun dómsins í dag er athygli saksóknara og verjanda Jóns Ásgeirs vakin á því, að svo kunni að vera að lýsing ákæruefnisins í I. kafla ákærunnar sé ekki svo glögg sem vera skyldi. Það kunni því að vera að ákæran að þessu leyti sé ekki í samræmi við fyrirmæli 1. málsgreinar 116. greinar laga um meðferð opinberra mála og er því saksóknara og verjanda gefinn kostur á að tjá sig um þetta þegar málið verður flutt um frávísunarkröfurnar.

I. kafli ákærunnar fjallar um meint auðgunarbrot Jóns Ásgeirs í tengslum við kaup á tveimur hlutafélögum undir nafninu Vöruveltan árin 1998 og 1999.

Fram kemur í bókun dómsins í dag, að verjendur Jóns Ásgeirs og Tryggva Jónssonar létu bóka um grundvöll frávísunarkröfu málsins, og vísuðu til 6. greinar Mannréttindasáttmála Evrópu, að:

  • Engin ákvæði séu í íslenskri löggjöf um endurútgáfu ákæru í kjölfar frávísunar máls.
  • Brotið hafi verið gegn meginreglu greinarinnar um jafnræði aðila í aðdraganda útgáfu nýrrar ákæru.
  • Reglur um málshraða hafi ekki verið virtar.
  • Afskipti sérstaks saksóknara af skipan dóms séu sérstakt brot á 1. grein um sjálfstæði dómara.
  • Afskipti Björns Bjarnasonar, dóms- og kirkjumálaráðherra, af málinu séu ósamrýmanleg réttindum sakborninga.
  • Sönnunarfærsla ákæruvalds sé andstæð greininni.

Þá vísuðu verjendurnir til þess að grundvelli málsins hefði verið raskað í nýrri ákæru vegna þess að bætt hafi verið við nýjum sakborningi, lýsingum staðreynda hafi verið breytt og heimfærsla til refsiákvæða hafi breyst.

Loks vísa verjendurnir til þess, að verulegir gallar séu á rannsókn málsins. Rannsóknin, sem lá að baki upphaflegu ákærunni, hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um meðferð opinberra mála. Þá hafi rannsókn ekki verið lokið þegar ákæra var gefin út, einstakar sakargiftir voru ekki bornar undir ákærðu og sérstakur saksóknari hafi ekki lagt sjálfstætt mat á rannsóknina.

Verjandi Jóns Geralds Sullenbergers krafðist þess að málinu verði vísað frá hvað hann varðar þar eð Jón H. B. Snorrason, saksóknari, hafi með bréfum 14. október og 20. desember 2005 lýst því yfir að ákvörðun hafi verið tekin um að gefa ekki út ákæru á hendur Jóni Gerald. Sú ákvörðun hafi byggst á því mati ákæruvaldsins, að það sem hefði komið fram við rannsókn málsins um hlut hans væri ekki nægilegt og ekki líklegt til sakfellis. Ekki verði séð að ný sönnunargögn hafi komið fram eftir að rannsókn lauk og þessar yfirlýsingar voru gefnar.

Settur ríkissaksóknari mótmælti því, að málinu verði vísað frá dómi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert