Tveir sjómenn fórust þegar eldur kviknaði í Akureyrinni

Akureyrin EA.
Akureyrin EA. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Tveir sjómenn létu lífið þegar eldur kom upp í Akureyrinni EA í dag þar sem skipið var statt 75 sjómílur út af Vestfjörðum. Sex úr áhöfninni voru fluttir með snert af reykeitrun með þyrlu Landhelgisgæslunnar í land.

Neyðarkall barst frá skipinu klukkan 14:10 í dag en klukkan 16 kom tilkynning frá skipinu um að búið væri að slökkva eldinn, sem kviknaði á annarri hæð í yfirbyggingu skipsins þar sem vistarverur starfsmanna eru. Klukkan 16:25 tók eldurinn sig upp að nýju en reykköfurum frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, sem komu með þyrlu um borð, tókst að ráða niðurlögum eldsins með aðstoð áhafnar skipsins laust fyrir klukkan 18.

Skipið siglir nú fyrir eigin vélarafli á sjö mílna ferð í austurátt. Ekki er ljóst hvert skipið siglir. Slökkviliðsmenn eru um borð og sigmaður frá Landhelgisgæslunni.

Kyrrðar- og bænastund verður í Glerárkirkju klukkan 21 í kvöld vegna þessa atburðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert