900 undirskriftir - 69 gildar

Viktor Traustason hefur til 15 á morgun að skila inn …
Viktor Traustason hefur til 15 á morgun að skila inn meðmælendalista sem uppfyllir skilyrði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landskjörstjórn ber að taka meðmælendalista Viktors Traustasonar til efnislegrar meðferðar að nýju. Þetta kemur fram í úrskurði úrskurðarnefndar kosningamála sem mbl.is hefur undir höndum. 

Hins vegar staðfestir nefndin að meiriháttar ágallar hafi verið á meðmælendalista Viktors og að hann hafi einungis 69 gilda meðmælendur. Hann hefur til 15 á morgun til þess að safna undirskriftum 1.500-3.000 meðmælenda. 

Fjöldi undirskrifta sem Viktor skilaði til Landskjörsstjórnar, óháð því hvort um var að ræða gildar undirskriftir eður ei, voru um 900 talsins með þeim 69 gildu rafrænu undirskriftum sem bárust. Flestar undirskriftir voru ógildar sökum þess að upp á vantaði heimilisföng meðmælenda og kennitölur sumra þeirra líkt og reglur kveða á um.  

Sami frestur og fjórmenningar fengu 

Í úrskurðinum er vísað til þess að fjórum frambjóðendum hafi þegar verið veittur frestur til úrbóta á meðmælendalistum og að þau vantaði á bilinu 6-31 meðmælenda. Það voru þau Arnar Þór Jónsson, Helga Þórisdóttir, Ástþór Magnússon og Eiríkur Ingi Jóhannsson. Fengu þau 23 klukkustundir til þess að skila inn uppfærðum lista og hafðist það í öllum tilfellum.

Í úrskurðinum er ekki gerð athugasemd við það að gild meðmæli séu 69 talsins og fær Viktor nú sólarhring til þess að skila inn lista með 1.500-3.000 meðmælendum.

Ekki með kosningaaldur og íslenskt ríkisfang 

Kristín Edwald formaður Landskjörstjórnar segir að áætluð meðmæli Viktors hafi verið rúmlega 900 og að á meðmælendalista hans hafi vantað á sjötta hundrað manns óháð því hvort handskrifuðu meðmælin hafi verið gild eður ei.

Kristín Edwald, formaður landskjörstjórnar.
Kristín Edwald, formaður landskjörstjórnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Meðal annars voru meðmæli frá fólki sem ekki var komið á aldur eða hafði annað ríkisfang. Með rafrænu undirskriftunum voru heildar undirskriftir um 900 talsins. Hann hefur til klukkan 15 á morgun til að ná lágmarks fjölda,“ segir Kristín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert